Skip to main content
1. febrúar 2018

Safnanótt í Veröld – húsi Vigdísar 

- Tólfan lærir rússnesku, Taichi og kínversk skrautskrift og margt fleira

Fjöldi skemmtilegra viðburða verða í boði fyrir alla fjölskylduna í Veröld – húsi Vigdísar á Safnanótt á morgun, föstudaginn 2. febrúar. Opið verður frá 18-22 og allan þann tíma verður eitthvað um að vera. 

Meðlimir Tólfunnar, stuðningssveitar íslensku landsliðanna í knattspyrnu, munu koma í heimsókn í fyrirlestrasalinn klukkan 20. Tólfan ætlar að vera vel undirbúin fyrir HM í Rússlandi í sumar og liður í því er að fá kennslu í rússnesku og rússneskri menningu. Öllum er velkomið að slást í hópinn, bæði þeim sem ætla til Rússlands og hinum sem ætla að fylgjast með úr fjarlægð. 
Þá verður hægt að læra að telja á kínversku, kínverska skrautskrift og Taichi. Þá verður sýningin um Vigdísi Finnbogadóttur opin og boðið upp á leiðsagnir um húsið. Þá verða fyrirlestrar um tengsl tungumála heimsins. Á jarðhæðinni verður frönsk kaffihúsastemning með hljómsveitinni Belleville, og tímabundið kaffihús verður sett upp. 

Dagskráin í heild sinni fylgir hér að neðan:
UPPHITUN FYRIR HM Í RÚSSLANDI 20-21:30
Nokkrir meðlimir Tólfunnar, stuðningsmannaliðs íslenska landsliðsins í knattspyrnu, koma í heimsókn og fá undirbúningskennslu í rússnesku og rússneskri menningu fyrir ferðina til Rússlands í sumar. Allir velkomnir.

KÍNVERSK SKRAUTSKRIFT - 18-22
Langar þig að geta skrifað nafnið þitt á kínversku eða upphafsstafi þína? Fólki gefst tækifæri á að spreyta sig á kínverskum táknum og skrifa nöfn á kínversku. Tilvalið fyrir alla fjölskylduna að spreyta sig.

LEIÐSÖGN UM VERÖLD – HÚS VIGDÍSAR 18:30-19 og 20:30-21
Í leiðsögninni er sagt frá húsinu og menningarlegu samhengi þess. Fjallað er um tengsl Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, við húsið og tungumál heimsins, en ýmislegt í starfi Vigdísar og heimi tungumálanna veitti arkitektunum innblástur við hönnunina. Í leiðsögninni er einnig fjallað um stöðu smárra tungumála í dag.

SAMTAL - DIALOGUE 18-22
Á sýningunni er sagt frá námsárum Vigdísar erlendis og starfi hennar sem frönskukennari, leiðsögumaður og síðar leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1972-1980. Gerð er grein fyrir fjölbreyttu hlutverki hennar sem forseti Íslands árin 1980-1996 og öllu því góða starfi sem hún hefur unnið eftir að forsetatíð lauk, m.a. sem velgjörðarsendiherra tungumála á vegum UNESCO - mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og sem öflugur liðsmaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

KENNSLA Í TAICHI 19-21
Nokkrar einfaldar Taichi hreyfingar kynntar og æfðar. Taichi er ævafornt, kínverskt æfingakerfi sem nýtur sífellt meiri vinsælda á Vesturlöndum. Taichi einkennist af afslöppuðum og mjúkum hreyfingum sem þjálfa í senn líkama og huga og hentar öllum aldurshópum, ungum sem öldnum.

KÍNVERSKUKENNSLA 19-21 
Boðið verður upp á kennslu í að telja frá núll upp í 10 á kínversku með aðstoð kínversks hrossabrests sem slær taktinn. Allir velkomnir. Boðið verður upp á kennslu í að telja frá núll upp í 10 á kínversku með aðstoð kínversks hrossabrests sem slær taktinn.

TENGSL TUNGUMÁLA HEIMSINS 19-19:20 og 21-21:20 
Sebastian Drude forstöðumaður Vigdísarstofnunar veltir fyrir sér hversu mörg tungumál séu töluð í heiminum, skyldleika þeirra, hvað gerist þegar þau koma saman og af hverju og hvernig þau deyja út. Sebastian talar ensku.

FRÖNSK KAFFIHÚSATÓNLIST EINS OG HÚN GERIST BEST 21-21:30 
Setjist niður í notalegu umhverfi, lokið augunum og ímyndið ykkur að þið séuð stödd í París 1930... Hljómsveitin Belleville töfrar fram franska stemningu á Safnanótt í Veröld. Hljómsveitin leikur frumsamin lög í musette-stíl í bland við gamlar lummur með Edith Piaf, Juliette Gréco, Yves Montand o.fl. Hljómsveitina skipa: Ásta Ingibjartsdóttir, Eyjólfur Már Sigurðsson, Olivier Moschetta og Rut Berg Guðmundsdóttir.

Frá Veröld - húsi Vigdísar