Skip to main content
27. október 2020

Rýnt í reynsluna af covid.is

Vefurinn covid.is er án efa einn af mest sóttu vefjum landsins þessa mánuðina enda hefur hann ásamt upplýsingafundum þríeykisins landsþekkta verið grundvöllur þeirrar mikilvægu upplýsingagjafar sem stjórnvöld hafa veitt í kórónuveirufaraldrinum. Vefurinn hefur vaxið umtalsvert að umfangi frá því hann var settur í loftið á vordögum og er nú orðinn þungamiðja rannsóknar sem vísindamenn innan Háskóla Íslands vinna að í samstarfi við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Embætti landlæknis.

Fyrir rannsókninni, sem nefnist „Við erum öll almannavarnir!“, fer Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði. Henni var kippt úr doktorsnámi í vor til að taka þátt í störfum viðbragðsteymis almannavarna og ritstýra covid.is. „Þessi reynsla mín varð kveikjan að rannsóknarverkefninu en markmið þess er að skilja hvernig þær leiðir sem farnar voru til að ná til almennings í COVID-19-faraldrinum virkuðu og hvað hefði mátt betur fara,“ segir Ingibjörg.

Innan Háskóla Íslands koma þau Guðrún Gísladóttir, prófessor í landfræði, Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða, og Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í umhverfis- og byggingarverkfræði, að verkefninu auk Ingibjargar. Öll hafa þau af reynslu af rannsóknum á samfélagslegum áhrifum hamfara og möguleikum á að auka seiglu samfélaga í gegnum norræna öndvegissetrið NORDRESS. Setrið hefur verið starfrækt undir þeirra forystu og með þátttöku 60 rannsakenda frá Norðurlöndum undanfarin ár. 

Þá hefur hópurinn einnig unnið að rannsóknum á áhrifum eldgosanna í Eyjafjallajökli og Holuhrauni. Doktorsverkefni Ingibjargar hverfist m.a. um félagslegt stuðningsnet þeirra sem takast á við langtímaafleiðingar náttúruhamfara hér á landi en undir félagslegan stuðning fellur m.a. upplýsingagjöf stjórnvalda. Öll þessi reynsla hópsins kemur sér því sannarlega vel nú þegar tekist er á við fordæmalausan faraldur sem snertir hvert einasta mannsbarn í landinu. 

Vefurinn covid.is er án efa einn af mest sóttu vefjum landsins þessa mánuðina enda hefur hann ásamt upplýsingafundum þríeykisins landsþekkta verið grundvöllur þeirrar mikilvægu upplýsingagjafar sem stjórnvöld hafa veitt í kórónuveirufaraldrinum. MYND/Júlíus Júlíusson

Hvernig hefur vefurinn nýst almenningi?

Aðspurð segir Ingbjörg að ætlunin með verkefninu sé að greina hvernig covid.is vefurinn var settur upp og hvernig hann hefur þróast en sem dæmi má nefna að hann er nú á aðgengilegur á tíu tungumálum auk íslensku og sífellt er verið að bæta þar við tölfræðilegum upplýsingum um framgang faraldursins. „Með djúpviðtölum við þau sem unnu að vefnum verður kannað hvað hafði áhrif á þróun hans. Hvers vegna og hvernig bættust við upplýsingar – er eitthvað sem gott hefði verið að vita í byrjun en kom ekki í ljós fyrr en síðar?“ spyr Ingibjörg og bætir við einnig sé ætlunin að leita til almennings með spurningakannanir um hvernig vefurinn hefur nýst og hvað má betur fara. „Gætt verður að því að ná til sem flestra þjóðfélagshópa.“

Greiningarvinna á vefnum og undirbúningsvinna vegna gagnaöflunar er enn í gangi en ljóst má vera að miklu máli skiptir að koma réttum og skýrum upplýsingum um faraldurinn skjótt til almennings til að stuðla að því að hann taki þátt í baráttunni við að halda honum í skefjum. „Ávinningur verkefnisins liggur í hagnýtingu þekkingar. Viðbragðsaðilar á Íslandi, Almannavarnir og fleiri, fá tækifæri til að tileinka sér þá þekkingu sem hlýst af rannsókninni, þekkingu sem gagnreynd er með vísindalegum aðferðum. Grundvallaratriði er sá möguleiki viðbragðsaðila á að innleiða í framhaldinu nýja þekkingu í sína starfsemi svo hún nýtist til framtíðar,“ segir Ingibjörg að endingu.

Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir