Rýnt í flókin einkenni nemendaáhrifa í framhaldsskólum | Háskóli Íslands Skip to main content
20. júní 2019

Rýnt í flókin einkenni nemendaáhrifa í framhaldsskólum

Ný rannsókn bendir til þess að framhaldsskólanemendur hér á landi upplifi formlegar leiðir til áhrifa gagnslausar. Þá ríkir ákveðið stigveldi innan veggja skólastofunnar varðandi tækifæri nemenda til að hafa áhrif sem byggt er m.a. á virðingarröð námsgreina. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í doktorsritgerð Valgerðar S. Bjarnadóttur um margslungin einkenni nemendaáhrifa í framhaldsskólum á Íslandi sem Valgerður varði við Háskóla Íslands nýverið.

„Áhrif nemenda í framhaldsskólum geta birst bæði á formlegan og óformlegan hátt. Formlegur vettvangur er t.d. í gegnum nemendafulltrúa, skólafundi og innra mat en hinn óformlegi er innan kennslustofunnar. Í honum felast m.a. samskipti nemenda og kennara, áhrif nemenda á innihald og yfirferð námsefnis, námsmat og aðferðir,“ lýsir Valgerður en hún starfaði sem framhaldsskólakennari um árabil.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að nemendur hafi upplifað formlegar leiðir til áhrifa gagnslausar. Af þeim sökum voru tækifæri nemenda til að taka þátt í ákvörðunum um nám sitt tilviljanakenndar og byggðar á einstaklingsframtaki þeirra. „Í rannsókninni vildi ég fyrst og fremst draga fram raddir og reynslu framhaldsskólanema af námi sínu. Ég tel að nemendur séu of sjaldan þátttakendur í samræðu um nám og kennslu en fyrri reynsla mín sem framhaldsskólakennari kenndi mér hversu margt má læra af nemendum þegar þeir fá rödd og vettvang fyrir skoðanir sínar og hugmyndir.“ 

Valgerður segir að ólík tækifæri nemenda til áhrifa hafi endurspeglað stigveldi brauta og námsgreina þar sem stærðfræði á náttúrufræðibrautum var efst í stigveldinu. „Nemendur á náttúrufræðibrautum reyndu að hafa áhrif á hraða yfirferðar í stærðfræði en þar sem stífur rammi var um yfirferð námsefnis gátu nemendur ekki haft áhrif sem varð til þess að greinin gegndi hlutverki hliðvarðar þegar kom að frekara námsvali nemenda. Aftur á móti var auðveldara fyrir nemendur að hafa áhrif á ýmsa þætti námsins í öðrum greinum,“ útskýrir Valgerður og bætir við að svör kennara hafi staðfest þessar niðurstöður. Enn fremur sýndu niðurstöðurnar dæmi um hvernig nemendaáhrif geta verið ógn við sett námsmarkmið og viðhaldið ríkjandi valdastöðu innan skólavettvangsins.

„Mín von er að niðurstöður rannsóknarinnar geti skapað umræðugrundvöll um stöðu nemandans í íslensku skólakerfi og tilgang menntunar. Jafnframt geta niðurstöðurnar haft áhrif á ríkjandi sýn á nemendamiðað nám og einstaklingshyggju í menntakerfinu. Það er mikilvægt að aukin áhrif nemenda felist ekki í frelsi frá skipulagi og strúktúrum heldur einkennist af samvinnu, ábyrgð og ígrunduðum vettvangi þar sem markmið námsins eru höfð að leiðarljósi,“ bendir Valgerður á að lokum.
 

Við athöfnina þann 4. júní við Háskóla Íslands. Á myndinni eru frá vinstri: Gestur Guðmundsson  prófessor og formaður doktorsnámsnefndar, Lynn Davies prófessor emeritus við Háskólann við Birmingham, Valgerður S. Bjarnadóttir, Michele Schweisfurth prófessor við Háskólann við Glasgow, Kolbrún Pálsdóttir forseti Menntavísindasviðs.