Skip to main content
18. apríl 2018

Róbert ráðinn sviðsstjóri kennslusviðs

Róbert H. Haraldsson hefur verið ráðinn sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands frá 1. júlí 2018. Hann starfaði sem sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands frá 15. apríl 2017 en hann var ráðinn tímabundið til eins árs.  

Róbert lauk BA prófi í heimspeki og sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1985 og doktorsprófi í heimspeki frá Háskólanum í Pittsburgh árið 1997. 
 
Róbert hefur kennt við Háskóla Íslands frá árinu 1992 og verið prófessor í heimspeki frá árinu 2007. Á árunum 2015-2016 og 2016-2017 sinnti Róbert stöðu gestaprófessors við Colgate-háskóla í New York-fylki (NEH distinguished professor of philosophy). Hann hefur einnig sinnt kennslu á gunn- og framhaldsskólastigi. 
  
Róbert var formaður kennslumálanefndar háskólaráðs 2008 til 2014 og hefur einnig setið í fjármálanefnd og vísindanefnd háskólaráðs. Hann hefur tekið virkan þátt í mótun stefnu HÍ 2006-2011 og 2011-2016 og verið formaður ýmissa tímabundinna nefnda og starfshópa við Háskóla Íslands svo sem nefndar um úttekt á brottfalli við Háskóla Íslands (2007) og setið í starfshópi um þróun A-prófsins (2012-2014).  Róbert hefur verið formaður námsbrautar í heimspeki, forstöðumaður Heimspekistofnunar, varadeildarforseti Hugvísindadeildar og formaður Félags háskólakennara. Þá hefur Róbert starfað sem ráðgjafi með ýmsum fagfélögum, fyrirtækjum og stofnununum á Íslandi og verið formaður ráðgjafanefndar Fjármálaeftirlitsins um hæfi stjórnarmanna fjármálafyrirtækja (2013-2015).  Hann var meðritstjóri Skírnis árin 1995-2000 og heimspekitímaritsins SATS 2001-2015. 

Róberti er óskað velfarnaðar í starfi.

Róbert H. Haraldsson