Ritver Hugvísindasviðs fimm ára | Háskóli Íslands Skip to main content
15. janúar 2019

Ritver Hugvísindasviðs fimm ára

Ritver Hugvísindasviðs Háskóla Íslands fagnar í dag fimm ára afmæli en það hefur reynst hundruðum nemenda haukur í horni í glímu þeirra við ritgerðir og önnur skrifleg verkefni í skólanum. 

Ritver Hugvísindasviðs er annað af tveimur ritverum Háskóla Íslands. Hitt er Ritver Menntavísindasviðs sem starfrækt hefur verið í tæp tíu ár. „Á báðum stöðum er lögð áhersla á að leiðbeina nemendum um ritgerðasmíð á háskólastigi, hvort sem það eru smáverkefni, skýrslur eða lokaverkefni. Þjónustan er fyrir alla nemendur háskólans, sama í hvaða deild þeir eru, og hún kostar ekki neitt,“ segir Jóhannes Gísli Jónsson, prófessor í íslenskri málfræði og umsjónarmaður Ritvers Hugvísindasviðs.

Ritverið var fyrst um sinn í Nýja-Garði en undanfarin þrjú ár hefur það verið á 2. hæð Landsbókasafnsins (Þjóðarbókhlöðunnar). „Þar bjóðum við upp á 30 og 60 mínútna viðtalsfundi og þar að auki Skype-fundi fyrir þá sem ekki komast á staðinn,“ segir Jóhannes Gísli. Hann bætir við að ritverið bjóði einnig upp á námskeið um ýmis atriði sem tengjast fræðilegum skrifum, t.d. uppbyggingu ritgerða, heimildaleit og heimildaskráningu skv. APA-kerfinu. Auk þess stendur ritverið fyrir árlegri Verkefnavöku á vormisseri í samvinnu við Ritver og Bókasafn Menntavísindasviðs, Landsbókasafnið, Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands og fleiri aðila þar sem nemendum sem er boðið upp á fræðslu og hjálp við verkefnavinnu af ýmsu tagi.

Framhaldsnemar sinna ráðgjöf í Ritveri Hugvísindasviðs og nú í byrjun vormisseris verða þeir á vaktinni á 2. hæð Þjóðarbókhlöðunnar á mánudögum og miðvikudögum kl. 10-13, þriðjudögum kl. 13-16 og fimmtudögum kl. 12-15. En hvað skyldu nemendur helst vilja ræða? „Flestir sem koma til okkar þurfa aðstoð við tæknileg atriði eins og sniðmát og heimildaskráningu en stundum koma nemendur bara til að fá að gott spjall við einhvern sem kann að hlusta og getur gefið góð ráð um ritgerðaskrif á háskólastigi,“ segir Jóhannes Gísli.

Notendahópur ritversins hefur vaxið jafnt og þétt á þeim fimm árum sem ritverið hefur starfað og þannig voru 320 heimsóknir á vormisseri 2018. „Nemendur af öllum fræðasviðum leita til okkar, þó mest úr hug- og félagsvísindum, og meirihlutinn er í grunnnámi en fjöldi meistaranema hefur einnig verið talsverður,“ segir Jóhannes.

Hann bendir jafnframt á að Ritver Hugvísindasviðs og Menntavísindasviðs hafi komið á fót leiðbeiningasíðu um ritun á háskólastigi síðastliðið vor en hún nýtist nemendum vel við skrif lokaverkefna. Síðuna má nálgast á http://ritun.hi.is/.

Nánari upplýsingar um Ritver Hugvísindasviðs eru á vef þess en þar er jafnframt hægt að bóka viðtalstíma.
 

""