Skip to main content
7. mars 2022

Rithöfundur, fræðimaður og hlaðvarpari á Hringbraut í kvöld

Rithöfundur, fræðimaður og hlaðvarpari á Hringbraut í kvöld - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í kvöld verður frumsýndur annar þátturinn í röðinni „Vísindin og við“ á Hringbraut en í honum er fjallað um störf vísinda- og fræðafólks Háskóla Íslands á breiðum grunni. Í þetta skiptið er rætt við Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda, og farið yfir helstu verkefni hans á þeim vettvangi. 

„Við ætlum að opna vísindasamfélagið í þessum þáttum alveg upp á gátt og gefa öllum innsýn inn í það stórkostlega starf sem fram fer við Háskóla Íslands. Við Íslendingar getum verið stolt af öllu því flotta fræðafólki sem starfar við HÍ og mér finnst frábært að kynna það og mikilvæg störf þess,“ segir Þóra Katrín Kristinsdóttir, sem stjórnar þáttunum með Sigmundi Erni Rúnarssyni. Þátturinn verður sýndur kl. 20 í kvöld. 

Rithöfundur – fræðimaður – ræðumaður – hlaðvarpari 

Ármann Jakobsson er býsna fjölhæfur fræðimaður sem lætur sér ekki nægja hefðbundnar leiðir við miðlun rannsókna og pælinga því hann hefur haldið úti hlaðvarpinu Flimtan og fáryrði ásamt samstarfsmanni sínum, Gunnlaugi Bjarnasyni, þar sem fjallað er á skemmtilegan og nýstárlegan hátt um ýmsar hliðar miðaldabókmennta. Lesa má heilmikinn fróðleik um Ármann á Vísindavef Háskóla Íslands en þar kemur meðal annars fram að helstu rannsóknarefni Ármanns séu hugmyndir og hugtök Íslendinga um yfirnáttúruna á miðöldum, viðhorf Íslendinga til konungsvalds, fagurfræði konungasaga, rannsóknasaga miðaldabókmennta og sögupersónur á jaðrinum í íslenskum miðaldaritum. 

Ármann Jakobsson er býsna fjölhæfur fræðimaður sem lætur sér ekki nægja hefðbundnar leiðir við miðlun rannsókna og pælinga því hann hefur haldið úti hlaðvarpinu Flimtan og fáryrði ásamt samstarfsmanni sínum, Gunnlaugi Bjarnasyni, þar sem fjallað er á skemmtilegan og nýstárlegan hátt um ýmsar hliðar miðaldabókmennta.

Eftir Ármann liggja fjölmargar greinar um íslenskar fornbókmenntir, ekki síst yfirnáttúru á miðöldum: tröll, álfa, dverga og jötna. Enn fremur hefur hann birt ýmsar greinar um stöðu barna, gamalmenna og þjónustufólks í fornsögum. En Ármann lætur sér ekki nægja að skrifa einungis fræðigreinar og -bækur. Hann er nefnilega mjög afkastamikill rithöfundur. Ármann hefur skrifað þessar skáldsögur: Fréttir frá mínu landi, Óspakmæli og örsögur,  Vonarstræti,  Glæsir, Brotamynd, Útlagamorðin, Urðarköttur og Tíbrá.

Ármann vakti athygli strax í menntaskóla fyrir yfirgripsmikla þekkingu en hann komst ásamt tvíburabróður sínum Sverri í þrígang í úrslit Gettu betur keppninnar landsfrægu en Sverrir er prófessor í sagnfræði við HÍ. Þeir bræður unnu sigur í Gettu betur árið 1990. Þess má geta að Ármann var líka í ræðuliði MS sem sigraði í Morfís-ræðukeppninni. 

Ármann er stúdent frá Menntaskólanum við Sund (árið 1990), hann er með BA-próf í íslensku (árið 1993), MA-próf í íslenskum bókmenntum (árið 1996) og hann lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2003. Hann var ráðinn lektor við Háskóla Íslands 1. Janúar árið 2008 og hefur verið prófessor frá aldarafmæli HÍ árið 2011. 

Spennandi þáttaröð um rannsóknir í HÍ

Það verður spennandi að heyra hljóðið í Ármanni í kvöld í þáttaröðinni nýju en fimm þættir eru nú í framleiðslu sem verða allir frumsýndir á mánudagskvöldum á Hringbraut. Umsjónarfólk þáttanna eru eins og áður sagði þau Þóra Katrín Kristinsdóttir, efnafræðingur frá Háskóla Íslands, og Sigmundur Ernir Rúnarsson, fjölmiðlamaður og ritstjóri Fréttablaðsins. 

Hér má sjá fyrsta þáttinn sem fór í loftið fyrir réttri viku. Heiða María Sigurðardóttir, dósent í sálfræði, var þá viðmælandi þeirra Þóru Katrínar og Sigmundar Ernis en Heiða María hefur ásamt samstarfsfólki rannsakað hvernig heilinn vinnur úr sjónrænum upplýsingum eins og til dæmis hjá einstaklingum með lesblindu.

Ármann Jakobsson