Skip to main content
7. mars 2019

Rit um stjórnskipulag og stjórnsýslu Háskóla Íslands

""

Út er komið ritið Stjórnskipulag og stjórnsýsla Háskóla Íslands. Aðalhöfundur er Ómar H. Kristmundsson og meðhöfundur Ásta Möller. Áslaug J. Marinósdóttir aðstoðaði við ritstjórn.

Ritið byggir á greiningu sem unnin var að beiðni Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, og er liður í því umbótastarfi sem fram fer innan skólans. Greiningin hafði þann tilgang að meta hvernig bæta megi innviði Háskólans þannig að hann geti sem best gegnt hlutverki sínu sem alþjóðlegur rannsóknaháskóli.

Um er að ræða eina viðamestu greiningu sem unnin hefur verið á stjórnskipulagi og stjórnsýslu Háskóla Íslands. Lögð var áhersla á fjölþætta gagnasöfnun og að leita til háskólasamfélagsins um úrlausnaraefni og ábendingar. Einnig var stjórnskipulag skólans borið saman við fyrirkomulag háskóla í nágrannalöndunum.

Verkefnið var unnið í fimm áföngum. Fyrstu tveir áfangarnir beindust að æðstu stjórn skólans með sérstakri áherslu á rektorsskrifstofu og sameiginlega stjórnsýslu. Til að unnt væri að bregðast strax við niðurstöðum og ábendingum voru unnar áfangaskýrslur vegna fyrstu tveggja áfanganna. Í kjölfarið var brugðist við ýmsum ábendingum sem þar komu fram. Niðurstöður og ábendingar vegna seinni áfanganna verða notaðar í áframhaldandi umbótastarfi innan skólans.

Ritið er aðgengilegt á vefsíðu skrifstofu rektors. Þar er einnig að finna viðauka sem fylgja ritinu. 
 

""