Skip to main content
4. febrúar 2019

Risatungl á UTmessu í Hörpu

Listaverkið Museum of the Moon

Háskóli Íslands, UTmessan og Skýrslutæknifélag Íslands (Ský) standa saman að uppsetningu á feikistóru listaverki í formi líkans af tunglinu í tengslum við UTmessu sem fram fer í Hörpu dagana 8. og 9. febrúar. Starfsmenn og stúdentar taka enn fremur virkan þátt í dagskrá messunnar.

UTmessan hefur verið haldin árlega allt frá árinu 2011 en um er að ræða einn stærsta viðburð ársins hér á landi á sviði upplýsinga- og tölvutækni. Ráðstefnan er jafnan á föstudegi og laugardegi og er fyrri dagurinn hugsaður sem ráðstefna og sýning fyrir fagfólk í upplýsingageiranum en seinni daginn er opið fyrir almenning þar sem færi gefst á að kynna sér ýmsar hliðar upplýsingatækninnar á gagnvirkan og lifandi hátt.

50 ár frá fyrstu tunglgöngunni
Í tengslum við ráðstefnuna að þessu sinni hafa Háskóli Íslands, UTmessan og Ský tekið höndum saman og bjóða upp á listaverkið Museum of the Moon eftir breska listamanninn Luke Jerram. Um er að ræða uppblásið tungl sem er sjö metrar í þvermál og með nákvæmum háskerpumyndum frá NASA af yfirborði tunglsins. Skalinn á tunglinu er 1:500.000,þar sem hver sentimetri á upplýstri kúlunni samsvarar um fimm kílómetrum á yfirborði tunglsins. Inni í tunglinu er ljósabúnaður og mun það lýsa upp Hörpu að innan með fallegu tunglsljósi á kvöldin. Tunglið mun rísa í Hörpu þegar tekur að skyggja í dag, mánudaginn 4. febrúar næstkomandi, og mun lýsa á gesti Hörpu og UTmessunnar til og með 11. febrúar.

Með þessu uppátæki vilja aðstandendurnir minnast þess að í ár er hálf öld liðin frá því að bandaríska geimfarið Apollo 11 frá Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) lenti á yfirborði tunglsins og Neil Armstrong steig þar fyrstur manna niður fæti.

Gríðarleg framþróun hefur orðið í tölvu- og upplýsingatækni frá þeim tíma og á opna degi UTmessunnar 9. febrúar verður því boðið upp á sérstaka dagskrá í Eldborgarsal Hörpu þar sem hinn íslenskættaði geimfari Bjarni Tryggvason fræðir gesti um geimferðalög og upplifun sína í geimnum. Að auki mun hann segja gestum frá fræknum tunglförum, hvernig það er að búa í geimnum og hvert tæknin mun leiða okkur í geimferðum í framtíðinni. Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðimiðlari mun enn fremur fjalla um tunglferðir og lærdóminn sem maðurinn hefur dregið af þeim og þá mun Kári Helgason, stjarneðlisfræðingur hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands segja gestum frá hinum ýmsu fyrirbrigðum í geimnum og hvernig vísindamenn fara að því að finna þau með hjálp tækninnar.

Listaverkið Museum of the Moon eftir breska listamanninn Luke Jerram verður til sýnis í Hörpu frá 4.-11. febrúar og er Jerram kominn hingað til lands til að setja verkið upp.

Hönnunarkeppni verkfræðinema og ýmis tól og tæki frá HÍ
Ýmislegt fleira verður á boðstólum frá Háskóla Íslands í Hörpu þann dag. Þar má m.a. nefna hina árlegu og sívinsælu Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema þar sem keppendur reyna að leysa þrautir á þar til gerðri þrautabraut með róbótum sem þeir hafa hannað. Keppnin hefst kl. 12 í Silfurbergi og allir eru velkomnir að fylgjast með. Þá munu aðstandendur og þátttakendur í hakkaþoninu Reboot Hack, sem fram fór í Háskóla Íslands 2. og 3. febrúar, segja frá keppninni og vinningstillögum í Kaldalóni milli kl. 10 og 12.

Enn fremur verður hægt að kynna sér ýmsar tækninýjungar og glíma við ýmis tól og tæki á vegum Vísindasmiðju Háskóla Íslands og þá verður kynning á LEGO-hönnunar- og tæknikeppninni og glæsikerru verkfræðinemanna í Team Spark við Háskóla Íslands. 

Dagskrá ráðstefnunnar og nánari upplýsingar um listaverkið Museum of the Moon má finna á heimasíðu UTmessunnar.

Listaverkið Museum of the Moon