Skip to main content
4. nóvember 2018

Risastyrkur til að auka vellíðan ungmenna

""

Rannsóknarteymi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands hefur hlotið hartnær 100 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu til að þróa námsefni og bæta námsumhverfi í grunnskólum. Ætlunin er að stuðla að aukinni vellíðan og seiglu íslenskra ungmenna. Verkefnið er samevrópskt og nefnist UPRIGHT en hérlendis er því stýrt af Önnu Sigríði Ólafsdóttur, prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Menntavísindasvið. Að verkefninu hér koma einnig Embætti landlæknis og sex grunnskólar. 

„Meginmarkmið þessa samevrópska verkefnis er að stuðla að vellíðan unglinga með því að efla seiglu þeirra og getu til að takast á við krefjandi verkefni unglingsáranna, sem er það tímabil ævinnar sem einkennist af örum breytingum,“ segir Anna Sigríður. 

Anna Sigríður og aðrir þátttakendur í verkefninu benda á augljós merki um aukið áreiti í íslensku samfélagi sem hafi veruleg áhrif á börn og unglinga. Því sé áríðandi að finna bjargráð handa ungu fólki sem þjálfi það í sjálfsstjórn og samskiptum. Mikilvægt sé fyrir ungt fólk að þekkja eigin gildi, styrkleika og jafnframt takmarkanir. 

„Það eru teikn um kvíða og vanlíðan í skóla,“ segir Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis, en hún tekur þátt í verkefninu fyrir hönd embættisins. „Við töldum nauðsynlegt að innleiða verkfæri í skólunum, sem byggð eru á rannsóknum, sem gera börnum betur kleift að takast á við áskoranir nútímasamfélags.“ 

Anna Sigríður segir að UPRIGHT-verkefnið bjóði einmitt upp á slík verkfæri. „Verkefninu er ætlað að stuðla að vellíðan allra í skólasamfélaginu þar sem kennarar og annað starfsfólk skólanna eru lykilpersónur ásamt foreldrum.“ 

Anna Sigríður segir að UPRIGHT miði að því að þróa námsefni og námsumhverfi sem þjálfi 12 til 14 ára unglinga, kennara og fjölskyldur þeirra við styrkingu sjálfstrausts auk þess sem það bæti félags- og tilfinningahæfni þeirra, meðal annars í gegnum núvitund. Þrír tilraunaskólar og þrír viðmiðunarskólar á höfuðborgarsvæðinu taki þátt í verkefninu. 

„Verkefnið, sem er gríðarlega viðamikið og unnið í fimm Evrópulöndum samtímis, er styrkt af Evrópusambandinu sem hluti af  Horizon 2020 rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun. Hlutur Háskóla Íslands er tæpar 100 milljónir króna en alls fékk verkefnið styrk sem hljóðar upp á röskan hálfan milljarð króna til fjögurra ára,“ segir Anna Sigríður. 

Að verkefninu hér koma auk hennar og Dóru Guðrúnar þær Ingibjörg Vala Kaldalóns, lektor í jákvæðri sálfræði, Bryndís Jóna Jónsdóttir, aðjúnkt og núvitundarkennari, Alda Ingibergsdóttir, sálfræðingur og doktorsnemi, Hrefna Pálsdóttir, lýðheilsufræðingur og doktorsnemi og Unnur Björk Arnfjörð, lýðheilsufræðingur og doktorsnemi en þær starfa allar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Einnig vinnur Sólveig Karlsdóttir menntunarfræðingur hjá Embætti landlæknis að verkefninu. 

Anna Sigríður segist vonast eftir góðum móttökum foreldra enda sé áherslan í UPRIGHT á afar mikilvæga þætti varðandi velferða ungmenna og samfélags. Virk þátttaka í grunnskólunum sex sé lykilatriði til að meta gildi verkefnisins.

Vefsíða UPRIGHT

UPRIGHT á Facebook

Aðstandendur UPRIGHT-verkefnisins hér á landi.
Anna Sigríður Ólafsdóttir
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir