Skip to main content
15. desember 2016

Risastyrkur í leitina að „áfallastreitugeninu“

""

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við Læknadeild Háskóla Íslands, hefur hlotið 240 milljóna króna styrk (tvær milljónir evra) frá Evrópska Rannsóknarráðinu (European Research Council) til rannsókna á erfðum heilsufars í kjölfar streituvaldandi atburða. Styrkurinn er mikil viðurkenning á vísindalegu framlagi Unnar Önnu og samstarfsmanna hennar við Háskóla Íslands og Íslenska erfðagreiningu.  

„Rannsóknin snýst fyrst og fremst um að skilja betur þátt erfða í því af hverju sumir einstaklingar missa heilsu í kjölfar áfalla á meðan aðrir þolendur sambærilegra áfalla gera það ekki. Þær spurningar sem við höfum lagt fram, og þær aðstæður sem við höfum til að svara þeim, eru einstakar á heimsvísu. Við vonumst til að ný þekking sem fæst úr rannsókninni nýtist í framtíðinni til að þróa fyrirbyggjandi aðgerðir og meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem eru í aukinni áhættu á heilsubresti í kjölfar áfalla,“ segir Unnur Anna.   

„Þessi styrkur er mikil viðurkenning á þeim einstaka íslenska efnivið og gagnagrunnum sem við Íslendingar eigum til vísindarannsókna á heilbrigðissviði. Styrkurinn gerir okkur kleift að gera enn betur og vinna að rannsóknum sem eiga sér enga hliðstæðu annarsstaðar í heiminum.“

Unnur Anna Valdimarsdóttir er með afkastameiri vísindamönnum Háskóla Íslands.  Nýlega vakti mikla athygli rannsókn hennar og samstarfsfólks við Háskólann, og fjölda virtra erlendra stofnanna, sem sýndi fram á að karlar og konur sem nýlega höfðu greinst með krabbamein væru í verulega aukinni hættu á sjálfsvígi og skyndilegu andláti vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Einnig hafa rannsóknir hennar og samstarfsmanna á ástvinamissi og náttúruhamförum sýnt fram á veruleg áhrif á heilsufar eftirlifenda. Nýja rannsóknin er nokkurs konar framhald af þessum rannsóknum. 

„Teymið mitt hefur um langa hríð unnið að rannsóknum á áhrifum áfalla á þróun heilsufars, þ.e.a.s. þróun sálrænna einkenni og geðraskana en einnig ýmissa líkamlegra sjúkdóma. Það sem vekur forvitni okkar er að það virðist sem sumir einstaklingar, sem verða fyrir slíkum skakkaföllum, séu mjög berskjaldaðir fyrir heilsubresti á meðan aðrir virðast nær ónæmir fyrir slíkum heilsubresti eftir sambærileg áföll.“

Unnur Anna segir að þetta sé fyrsta rannsóknin á heimsvísu sem hafi forsendur til að svara þeim mikilvægu spurningum sem rannsóknin fæst við. Með ítarlegar erfðaupplýsingar og heilsufarsgagnagrunna yfir heila þjóð geta Íslendingar, sem áður, verið í fararbroddi í þekkingarsköpun á þessu sviði. 

„Þannig nýtum við í rannsóknateyminu þann einstaka efnivið sem fólginn er í erfðagrunni Íslenskrar erfðagreiningar, Íslendingabók og í íslenskum heilbrigðisgagnagrunnum. Með þeim gögnum getum við skoðað tengsl erfðabreytileika við breytileika í sjúkdóma- og dánartíðni Íslendinga í kjölfar algengra streituvaldandi atburða, svo sem eftir ástvinamissi eða eftir greiningu alvarlegs sjúkdóms á borð við krabbamein. Við munum einnig skipuleggja stórar framsýnar rannsóknir til að greina erfðabreytileika sem tengjast einkennum áfallastreituröskunar eftir áföll á borð við kynferðisofbeldi og náttúruhamfarir.“

Evrópska rannsóknaráðið (ERC) er hluti af Horizon 2020 rannsóknaáætlun Evrópusambandsins. Meginmarkmið ERC er að hvetja til hágæða grunnrannsókna í Evrópu með samkeppnisstyrkjum þar sem framúrskarandi vísindamenn með einstakar hugmyndir eru einungis styrktir. Þrjár gerðir af styrkjum eru í boði: til ungra vísindamanna, en þeir eru veittir tveimur til sjö árum eftir að þeir ljúka doktorsprófi, til vísindamanna sem unnið hafa að rannsóknum allt að 14 ár frá doktorsprófi og í þriðja lagi til reyndra vísindamanna.

Þetta er einungis annar styrkurinn af þessu toga sem fer til íslenskra vísindamanna og úthlutunarhlutfall til kvenna í Evrópu úr þessum sjóði er einungis 28 prósent.

Unnur Anna Valdimarsdóttir
Rannsóknahópur verkefnisins
Unnur Anna Valdimarsdóttir
Rannsóknahópur verkefnisins