Skip to main content
3. maí 2019

Réttindi leikskólabarna í ljósi Barnasáttmálans

Hvaða þýðingu hefur Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fyrir leikskólastarf? Leitað verður svara við þessari spurningu og mörgum öðrum á morgunverðarfundi sem RannUng, rannsóknastofa í menntunarfræði ungra barna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, stendur fyrir á Grand Hótel mánudaginn 6. maí kl. 8.30-11.00.

Í ár eru 30 ár liðin frá því Barnamáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Sáttmálinn var lögfestur á Íslandi árið 2013 og hefur haft gríðarleg áhrif á leikskólastarf hér á landi sem og annars staðar.

„Segja má að lögfestingin feli í sér stefnuyfirlýsingu stjórnvalda um að uppfylla sáttmálann í hvívetna. Sáttmálinn vakti athygli á samfélagslegri stöðu barna og í kjölfar hans urðu málefni barna og réttindi þeirra viðurkennd á alþjóðavettvangi. Áhersla er lögð á virðingu fyrir sjónarmiðum barna og rétti þeirra til að tjá sig um málefni sem varða þau. Í grófum dráttum má skipta réttindum barna í þrjá flokka; vernd, umönnun og þátttöku. Barnasáttmálinn tekur einnig á rétti barna á vernd fullorðinna fyrir hugsanlegri skaðlegri reynslu,“ segir Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræði ungra barna við Háskóla Íslands, en hún mun flytja erindi á morgunverðarfundinum um hvaða áhrif Barnasáttmálinn hefur haft á leikskólastarf.

Sama ár og sáttmálinn var lögfestur hér á landi var gefin út umsögn við sáttmálann sem áréttaði sérstaklega mikilvægi leiks fyrir börn. „Það hafði komið í ljós að víða var pottur brotinn hjá aðildarríkjunum varðandi leik barna. Fjallað er sérstaklega um nauðsyn þess að börn fái tíma og rými fyrir frjálsan leik og þetta er í anda þeirrar hugmyndafræði sem ríkjandi er í leikskólastarfi á Norðurlöndunum,“ segir Jóhanna enn fremur.

Auk Jóhönnu mun Michel Vandenbroeck, prófessor við Ghent-háskóla í Belgíu, halda fyrirlestur um réttindi barna í leikskólum. Hann er meðal virtustu fræðimanna á sviði leikskólamenntunar og hefur vakið athygli víða um heim fyrir rannsóknir sínar um stefnumótun og starfshætti í leikskólum og stuðning við foreldra í fjölmenningarsamfélagi, svo eitthvað sé nefnt.  
Þá munu Herdís Gunnlaugsdóttir og Salbjörg Júlía Þorsteinsdóttir, leikskólakennarar í leikskólanum Króki, segja frá því hvernig leikskólar starfa að Barnasáttmálanum. 

Fundarstjórar eru Aðalheiður Stefánsdóttir, leikskólastjóri í Reynisholti, og Þrúður Hjelm, skólastjóri í Krikaskóla.
Nánari upplýsingar og skráningu má finna á vef RannUng.

Hvaða þýðingu hefur Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fyrir leikskólastarf? Leitað verður svara við þessari spurningu og mörgum öðrum á morgunverðarfundi sem RannUng, rannsóknastofa í menntunarfræði ungra barna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, stendur fyrir á Grand Hótel mánudaginn 6. maí kl. 8.30-11.00.