Skip to main content
26. janúar 2018

Rektor í stjórn Aurora

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, var á dögunum kosinn í stjórn Aurora-samstarfsnetsins, nets níu evrópskra háskóla sem Háskólinn á aðild að. Með því skapast tækifæri til aukinna áhrifa skólans innan netsins.

Aurora-samstarfsnetið var stofnað í október 2016 og að því koma háskólar sem hafa svipaða sýn og stefnu og leggja jafnframt ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð. Háskólarnir eru Vrije Universiteit Amsterdam (Hollandi), Université Grenoble-Alpes (Frakklandi), University of Aberdeen (Skotlandi), University of Antwerp (Belgíu), University of Bergen (Noregi), University of Duisburg-Essen (Þýskalandi), University of East Anglia (Englandi), University of Gothenburg (Svíþjóð) og Háskóli Íslands. Lykiláhersla er innan netsins á fjóra þætti: fjölbreytileika og aðgengi fyrir alla, áhrif og þýðingu rannsókna fyrir samfélagið, nýsköpun í kennslu og námi og málefni stúdenta.

Stjórn Aurora-netsins er skipuð þremur rektorum. Í fyrstu stjórn netsins sátu Jaap Winter, rektor Vrije Universiteit Amsterdam, og var hann formaður stjórnar, David Richardson, rektor University of East Anglia, og Lisa Dumasy, rektor Université Grenoble-Alpes. 

Jaap Winter hætti sem rektor Vrije Universiteit Amsterdam á síðasta ári og gekk jafnframt úr stjórn Aurora. David Richardson, rektor UEA, var í framhaldinu kjörinn formaður Aurora. Enn fremur tók  Patrick Levy, nýr rektor Université Grenoble-Alpes, sæti í stjórninni janúar í stað Lisu Dumasy. Kosið var um þriðja sætið í stjórn í lok árs 2017 og bauð Jón Atli sig fram og hlaut afgerandi kosningu.  

Háskóli Íslands sér mikil tækifæri í þátttöku í Aurora-samstarfsnetinu og með setu rektors í stjórn munu skapast auknir möguleikar til áhrifa á áherslur innan netsins sem gagnast starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands sem best.  

 

Jón Atli Benediktsson