Skip to main content
16. nóvember 2021

Rektor HÍ á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims

Rektor HÍ á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, er áfram á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims en nýr listi hins virta greiningarfyrirtækis Clarivate Analytics var birtur í morgun. 

Listinn kallast Highly Cited Researchers og nær til þess eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum. Listinn byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science og í ár er tekið mið af tilvitnunum á árabilinu 2011-2020. Listinn tekur að þessu sinni til rúmlega 6.600 vísindamanna á 21 fræðasviði, þar á meðal 24 Nóbelsverðlaunahafa.

Jón Atli Benediktsson sem hefur verið á lista Clarivate Analytics um árabil en hann er í hópi fremstu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar og stafrænnar myndgreiningar. Fjarkönnun felst m.a. í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Árangur Jóns Atla á listanum er ekki síst áhugaverður þegar horft er til þess að hann hefur verið rektor Háskóla Íslands undanfarin sex ár og á þeim tíma ekki sinnt rannsóknum í sama mæli og fyrr á ferlinum. 

Vitnað til verka Jóns Atla 23.000 sinnum

Jón Atli er er höfundur meira en 400 fræðigreina og bókarkafla á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði og samkvæmt nýjum lista Clarivate Analytics var vitnað yfir 23.000 sinnum til rannsókna hans á því tímabili sem til skoðunar er. Hann er margverðlaunaður fyrir rannsóknir sínar og vísindastarf, bæði á alþjóðavettvangi og hér heima, og fékk m.a. í fyrra viðurkenningu IEEE Geoscience and Remote Sensing Society (GRSS) fyrir framlag sitt til menntunar á sviði fjarkönnunar.

Það er afar þýðingarmikið fyrir háskóla að vísindamenn komist á lista Clarivate Analytics enda undirstrikar það m.a. styrk rannsóknastarfs í skólunum. Mikið er vitnað til listans og meðal annars horft til hans þegar háskólum er raðað á hinn þekkta Shanghai-lista yfir bestu háskóla heims.

Við þetta má bæta að þrír gestaprófessorar við Háskóla Íslands eru einnig á nýjum lista Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims. Þetta eru þeir Bernharð Örn Pálsson, Jocelyn Chanussot og Ian F. Akyildiz. 

Bernharð er prófessor í líftækni og læknisfræði við Kaliforníuháskóla í San Diego og hefur m.a. sérhæft sig í svokallaðri kerfislíffræði. Chanussot er prófessor við Grenoble Institute of Technology í Frakklandi og hefur sérhæft sig í fjarkönnun eins og Jón Atli. Hann hefur verið gestaprófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2013. Akyildiz er prófessor emeritus við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Georgia Institute of Technology og á að baki afar farsælan feril á sviði rannsókna í fjarskiptafræðum. Hann varð gestaprófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild í fyrrahaust og kennir námskeið við deildina.

Heildarlista Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims má finna á vef fyrirtækisins.
 

Jón Atli Benediktsson