Rekstur í sjávarútvegi vorið 2019 | Háskóli Íslands Skip to main content

Rekstur í sjávarútvegi vorið 2019

4. janúar 2019

Á vormisseri 2018 var námskeiðið rekstur í sjávarútvegi endurvakið eftir áratuga hlé hjá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Það er Ásta Dís Óladóttir sem er umsjónarmaður námskeiðsins en hún hefur fengið til liðs við sig einvala lið sérfræðinga. Þeir sem koma að námskeiðinu auk Ástu Dísar eru Ágúst Einarsson, Ragnar Árnason, Sigurjón Arason, Daði Már Kristófersson, Sveinn Agnarsson og Helgi Áss Grétarsson. Þá mun Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, flytja erindi um mikilvægi norðurslóða en Arctic Circle hefur fest sig í sessi hjá helstu þjóðarleiðtogum heims.

Námskeiðið heppnaðist afar vel s.l. vor og voru nemendur ánægðir með þá miklu fjölbreyttni sem ríkti í námskeiðinu, bæði í kennslu en einnig í því að fá forsvarsmenn fyrirtækja í sjávarútvegi á stefnumót í háskólanum, sem og að nemendur fara í heimsókn til fyrirtækja og fá að skoða starfsemi þeirra. Þá eiga nemendur þess kost að vinna raunhæf verkefni fyrir fyrirtæki og geta jafnvel útvíkkað þau í lokaverkefni.  Þau fyrirtæki sem taka á móti nemendum að þessu sinni eru Marel, sem hlaut Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2018 og þekkingarfyrirtæki ársins 2018, Vísir Hf. í Grindavík.

Námskeiðið stendur nemendum á þriðja á ári í grunnnámi og öllum í framhaldsnámi í Háskóla Íslands til boða. Það er hugsað fyrir þá sem vilja öðlast skilning á helstu þáttum og forsendum íslensks sjávarútvegs og þýðingu og áhrifum hans á íslenskt hagkerfi. Námskeiðið sameinar hagnýta og fræðilega þekkingu á sviði sjávarútvegsfræða. 

Nánari  upplýsingar um námskeiðið má finna í kennsluskrá Háskóla Íslands.

Friðrik frá HB Granda, Örvar frá Ísfélaginu, Jón Atli Benediktsson, Ásta Dís Óladóttir, Ægir Páll forstjóri HB Granda og Sigurður hjá Síldarvinnslunni