Skip to main content
20. júní 2019

Rannsökuðu áhrif morfín- og kvíðalyfjanotkunar fyrir skurðaðgerð á dánartíðni

Einstaklingar sem leystu út lyfseðla fyrir morfínskyldum lyfjum og benzodiazepínlyfjum höfðu hærri dánartíðni innan 30 daga frá aðgerð og hærri langtímadánartíðni en einstaklingar í samanburðarhópi samkvæmt niðurstöðum íslensks rannsóknarhóps sem birtust í gær eru í einu virtasta læknatímariti heims á sviði skurðlækninga, JAMA Surgery. Martin Ingi Sigurðsson, prófessor í svæfingalæknisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands, fer fyrir rannsóknarhópnum. 

Heimurinn allur leitar leiða til að bregðast við faraldri notkunar morfínskyldra lyfja og margir rannsakendur eru kanna nú áhrif notkunar þeirra á afdrif sjúklinga, meðal annars sjúklinga sem undirgangast skurðaðgerðir. „Við höfum jafnframt áhyggjur af afdrifum þeirra sjúklinga sem taka kvíðastillandi lyf af flokki benzodiazepína en notkun þeirra hefur verið vaxandi á Íslandi eins og í heiminum öllum,“ segir Martin Ingi, sem er jafnframt yfirlæknir svæfinga- og gjörgæslulækninga á Landspítalanum.  

Rannsóknarhópurinn, sem samanstendur af svæfinga- og gjörgæslulæknum, skurðlæknum og lyflæknum, ákvað að kanna horfur sjúklinga sem undirgangast skurðaðgerðir á Landspítala í samhengi við lyfjanotkun sjúklinganna fyrir aðgerð. „Við höfum á undanförnum árið unnið að gerð aðgerðargagnagrunns sem m.a. inniheldur breytur sem lýsa lyfjanotkun sjúklinga mánuðina fyrir skurðaðgerð. Grunnurinn inniheldur upplýsingar um ríflega 42 þúsund skurðaðgerðir sem gerðar voru á Landspítala á árunum 2005-2015. Í rannsókninni bárum við saman horfur einstaklinga sem leystu út lyfseðla fyrir morfínskyldum lyfjum, benzodiazepínlyfjum eða lyfjum úr báðum lyfjaflokkum við einstaklinga sem tóku engin lyf úr þessum lyfjaflokki fyrir aðgerð. Við gættum þess vel að para saman einstaklinga sem eru jafn gamlir, álíka veikir og undirgangast svipaðar skurðaðgerðir. Niðurstöður okkar leiddu í ljós að einstaklingar sem leystu út lyfseðla fyrir bæði morfínskyldum lyfjum og benzodiazepínlyfjum höfðu hærri dánartíðni innan 30 daga frá aðgerð og hærri langtíma dánartíðni en samanburðareinstaklingar,“ að sögn Martins Inga.

Hann segir að það sé mikilvægt að geta þess að rannsóknarhópurinn geti ekki sýnt fram á orsakasamband með þeirri aðferðarfræði sem beitt var, einungis fylgni milli þessara breyta. Því gagnist niðurstöðurnar einkum til að leggja drög að næstu skrefum sem myndu miða að því að framkvæma inngrip í lyfjanotkun fyrir aðgerð. „Stór skurðaðgerð er meiri háttar atburður í lífi sjúklinganna okkar og tilkoma skurðaðgerðar getur verið drifkraftur breytinga,“ segir Martin Ingi sem vonast til þess að niðurstöður hópsins hvetji sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk til þess að yfirfara vandlega lyfjanotkun með tilliti til þessara lyfjaflokka og gera breytingar fyrir aðgerð ef þess er nokkur kostur.

Hann leggur enn fremur áherslu á að eftir því sem skurðaðgerð býðst sem meðferðarmöguleiki við æ fleiri sjúkdómum hjá eldri og veikari sjúklingum sé það skylda heilbrigðisstarfsfólks að reyna að gera árangur þeirra eins góðan og kostur er. „Við teljum að tíminn fyrir aðgerð sé þar vannýttur en hann má oft nýta til að bæta líkamlegt ástand sjúklingsins sem svo bætir árangur aðgerðarinnar. Nú þegar er til staðar metnaðarfullt samstarfsverkefni Landspítala og Heilsugæslunnar sem miðar að því að bæta líkamlegt ástand sjúklinga sem undirgangast liðskiptaaðgerðir. Núverandi verkefni miðar að því að greina og meðhöndla blóðskort, vannæringu, ofþyngd, reykingar og hækkaðan blóðsykur fyrir aðgerð til að bæta árangur þeirra. Við vonumst til þess að í framtíðinni taki slík verkefni jafnframt til lyfjanotkunar sjúklinganna og að tækifærið sem gefst í aðdraganda skurðaðgerða sé notað til að yfirfara lyfjanotkun með tilliti til þessara lyfjaflokka,“ segir Martin Ingi. 

Hér má sjá viðtal við Martin Inga.

Martin Ingi Sigurðsson, prófessor í svæfingalæknisfræði við Háskóla Íslands.