Skip to main content
27. maí 2019

Rannsóknaskóli í norrænni miðaldasögu haldinn á Íslandi

Samnorrænt rannsóknanámskeið (forskningskurs) í norrænni miðaldasögu var haldið í fyrsta sinn við Háskóla Íslands dagana 22.-23. maí, en vonir standa til að framhald geti orðið á þessu starfi. Yfirskrift rannsóknaskólans var að þessu sinni Individual and Community in Medieval Scandinavia. Alls sóttu 11 doktorsnemar frá fjórum háskólum skólann ásamt fimm leiðbeinendum. Var hér alþjóðlegur hópur á ferð en nemendurnir komu frá Íslandi, Noregi, Frakklandi, Bandaríkjunum, Kanada, Ísrael og Argentínu.

„Markmið rannsóknaskólans er að styrkja Háskóla Íslands sem rannsóknastofnun á sviði miðaldasögu og efla tengslin við norræna háskóla“, segir Sverrir Jakobsson prófessor sem var skipuleggjandi rannsóknaskólans. „Námskeið af þessu tagi eru mikilvægur hluti af undirbúningi doktorsnema en framboð á þeim er oft af skornum skammti. Það er mikilvægt að Háskóli Íslands sé ekki einungis þiggjandi í norrænu samstarfi heldur geti nemendur við aðra háskóla nýtt sér þá sérþekkingu sem íslenskir fræðimenn búa yfir.“

Fyrirlestur á samnorræna rannsóknanámskeiðinu.