Skip to main content
7. maí 2019

Rannsóknasetur brúar bil milli fræðasamfélags og sveitarstjórna

„Með því að vinna að rannsóknum sem lúta að stjórnsýslunni má ýta undir faglega nálgun í sveitarstjórnarmálum og styrkja sveitarstjórnarstigið enn frekar. Verkefnin stækka, sveitarfélögin stækka og það er sameiginlegur ávinningur allra að unnið sé að rannsóknum fyrir sveitarfélögin til þess að efla þau og styrkja,“ segir Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, verkefnisstjóri nýs Rannsóknarseturs um sveitarstjórnarmál á Laugarvatni, sem var formlega opnað á dögunum.

Setrið var stofnað seint á síðasta ári með samningi stjórnvalda og Háskóla Íslands en tilgangur þess er að styrkja sveitarstjórnarstigið á Íslandi með markvissum rannsóknum tengdum stjórnsýslu og þéttbýlisfræðum og með námi og fræðslu fyrir starfsfólk sveitarfélaga.

Helga Kristín var ráðin verkefnisstjóri setursins í upphafi árs og segir fyrstu mánuðina hafa farið í að marka stefnu fyrir setrið og setja markmið í takt við þær hugmyndir sem í upphafi var lagt upp með. „Þar að auki hef ég reynt að kynna mér mögulega hagsmunaaðila og sækja viðburði fyrir hönd setursins og svo fór töluverð vinna í undirbúning opnunarinnar sem var 5. apríl. Við höfum lagt mikið upp úr því að safna tengiliðum til þess að ná til sem flestra sem starfa innan sveitarfélaganna og opinberra stofnana. Við erum sífellt að vinna með hugmyndir og mögulegar útfærslur á þjónustu fyrir kjörna fulltrúa og annað starfsfólk innan stjórnsýslunnar og leggjum ríka áherslu á hagnýt námskeið sem eru fyrst og fremst byggð á rannsóknum og/eða áralangri reynslu og þekkingu,“ segir Helga Kristín enn fremur en hún hefur aðsetur í húsnæði Háskóla Íslands á Laugarvatni.

Aðspurð segir Helga Kristín að viðtökur við setrinu hafi verið mjög góðar og margir sýnt því áhuga. „Flestir tala um nauðsyn þess að brúa bilið milli fræðasamfélagsins og framkvæmdaaðila sveitarfélaganna og í því felst ákveðið tækifæri fyrir okkur,“ bætir hún við.
 

„Setrið mun vonandi í nánustu framtíð verða leiðandi í rannsóknum á sviði sveitarstjórnarmála og standa á styrkum grunni. Það eru fjölmörg tækifæri sem hægt er að grípa ef vel er að gáð. Unnið er að því að stofna námslínu í framhaldsnámi í opinberri stjórnsýslu (MPA) við Háskóla Íslands sem mun ýta undir þörfina til rannsókna á þessu sviði. Að auki eru mörg tækifæri að finna í rannsóknum sem eru til nú þegar og ekki má gleyma þekkingu annarra þjóða en með tíð og tíma mætti horfa á samstarf við erlenda háskóla ef áhugi og grundvöllur skapast til þess.“ MYND/Rúnar Gunnarsson

Skoða stöðu kynjanna í æðstu stjórnunarstöðum sveitarfélaga
Þegar er byrjað að brúa þetta bil með skipulagningu námskeiða á landsbyggðinni. „Næsta námskeið verður haldið á Ísafirði nú í byrjun maí og svo er annað námskeið í kortunum á Akureyri í lok maí. Þónokkrir aðilar hafa haft samband og óskað eftir samstarfi og við munum finna heppilegan grundvöll til þess. Að öðru leyti erum við og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands í miklu samstarfi og skiptum á milli okkar verkefnum sem nýtast á báða bóga. Næstu vikur fara þó mest í það að kynna setrið, hitta fólk og kynna sér starfssemi annarra stofnana og skoða hvaða grundvöllur liggur fyrir í samstarfi með hagsmunaaðilum,“ segir Helga Kristín enn fremur.

Lengi var skortur á rannsóknum á sveitarstjórnarmálum hér á landi en þær hafa eflst á síðustu árum og misserum samfara auknum umsvifum sveitarfélaga. Rannsóknasetrinu nýja er ætlað að styrkja þennan mikilvæga þátt enn frekar. Nú þegar er unnið að rannsókn á stöðu kynjanna í æðstu stjórnunarstöðum sveitarfélaganna, sem er hluti af samnorrænu verkefni, og þá er verið að skoða hvort samstarf sveitarfélaga getur bætt upp skort á sérfræðingum innan sveitarfélaganna sjálfra og aukið þannig stjórnsýslulegt bolmagn þeirra. 

„Setrið mun vonandi í nánustu framtíð verða leiðandi í rannsóknum á sviði sveitarstjórnarmála og standa á styrkum grunni. Það eru fjölmörg tækifæri sem hægt er að grípa ef vel er að gáð. Unnið er að því að stofna námslínu í framhaldsnámi í opinberri stjórnsýslu (MPA) við Háskóla Íslands sem mun ýta undir þörfina til rannsókna á þessu sviði. Að auki eru mörg tækifæri að finna í rannsóknum sem eru til nú þegar og ekki má gleyma þekkingu annarra þjóða en með tíð og tíma mætti horfa á samstarf við erlenda háskóla ef áhugi og grundvöllur skapast til þess. Við munum vinna  hart að því að skapa þann grunn sem þarf til að Rannsóknarsetur um sveitarstjórnarmál standi á sterkum stoðum og það sé komið til að vera,“ segir Helga Kristín að endingu.

Hægt er að kynna sér starfsemi setursins nánar á heimasíðu þess og á Facebook.

Helga Kristín Snæbjörnsdóttir