Rannsaka áhrif hrunsins á nýsköpun | Háskóli Íslands Skip to main content
8. ágúst 2019

Rannsaka áhrif hrunsins á nýsköpun

Efnahagshrunið árið 2008 hafði alvarlegar afleiðingar fyrir marga. Sem dæmi misstu fjölmargir vinnuna, jafnvel húsnæði og aðrir töpuðu umtalsverðum fjármunum. Magnús Þór Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild, og samstarfsmaður hans, Wesley Sine, prófessor við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum, ákváðu að horfa á það jákvæða sem gerðist í kjölfar þess með því að rýna í frumkvöðlastarfsemi og tengslanet eftir hrunið á Íslandi. 

Rannsóknin miðar að því að kanna hvort frumkvöðlastarfsemi hafi aukist eftir hrun með áherslu á hvort aðilar sem komu úr fjármálageiranum hafi verið áberandi í stofnun fyrirtækja. „Eftir hrun fækkaði fólki í bönkunum. Þeir hættu að ráða og fólk fór að horfa í kringum sig,“ segir Magnús. Hann segir ákveðinn slaka geta komið upp í slíkum kringumstæðum. Það losni um fólk og það fari að gera eitthvað annað. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum þeirra á greiningu gagna frá Hagstofu Íslands kom í ljós hlutfallsleg aukning á árunum 2008–2014 í stofnun fyrirtækja. Aukningin hafi verið í nýsköpunartengdum atvinnugreinum á borð við vísinda- og tæknistarfsemi, upplýsingatækni og ferðamennsku, en eftir 2014 hafi þetta hlutfall farið aftur lækkandi. 

„Núna erum við að skoða hvaða hópar fólks það voru sem stofnuðu þessi fyrirtæki, til dæmis hvort að það hafi verið fólk úr fjármálageiranum,“ segir Magnús. Hann gerir ráð fyrir að rannsókninni ljúki 2019. 

Samkvæmt fyrstu niðurstöðum þeirra Magnúsar Þórs og Welsey á greiningu gagna frá Hagstofu Íslands kom í ljós hlutfallsleg aukning á árunum 2008–2014 í stofnun fyrirtækja. Aukningin hafi verið í nýsköpunartengdum atvinnugreinum á borð við vísinda- og tæknistarfsemi, upplýsingatækni og ferðamennsku, en eftir 2014 hafi þetta hlutfall farið aftur lækkandi. 

Tilgátan sem Magnús og Wesley vinna út frá er að stofnendur fyrirtækja í kjölfar hruns hafi komið í meira mæli úr fjármálageiranum heldur en þeir sem stofna fyrirtæki í dag eða gerðu það fyrir hrun. Aðspurður um væntingar til niðurstöðu segir Magnús að þeir vonist til að fram komi í gögnum að fólkið sem var að vinna í fjármálageiranum hafi stofnað fyrirtæki og að aukninguna megi rekja til þess að það hafi haft meira svigrúm og tíma til að stofna fyrirtæki. 

Hann segir rannsóknina innlegg í rannsóknir á áhrif samfélagsbreytinga á nýsköpun. Hafa þurfi í huga hvort ákveðinn slaki sé í samfélaginu sem hvetji til nýsköpunar. Ekki sé gefið að stofnun nýrra fyrirtækja haldi áfram, það sé ekki endilega alltaf svigrúm til þess þar sem ný fyrirtæki stækki oft og þurfi frekari mannafla. „Á endanum er það fólkið sem býr til fyrirtækin. Flæðið á milli lítilla og stórra fyrirtækja er eitthvað sem þarf að huga að í nýsköpunarumhverfi,“ segir Magnús.  

Höfundur greinar: Helena Rós Sturludóttir, meistaranemi í blaða- og fréttamennsku

Magnús Þór Torfason