Skip to main content
17. janúar 2018

Rafurlogar og vafurlogar

Segja má að norðurljósin séu í háskerpu og reyndar geimurinn allur í þessari viku hjá Háskóla Íslands. Hátæknigervitungl hefur verið til sýnis á Háskólatorgi í vikunni en það er m.a. mikilvægt í fjarkönnunarrannsóknum sem stundaðar eru af krafti við skólann.  Á föstudag mun svo Sævar Helgi Bragason, vísindamiðlari við Háskóla Íslands, ganga með fólki við Kaldársel í Hafnarfirði og beina sjónum þess að stjörnum og norðurljósum sem munu án efa dansa um himinn en spá er bæði góð hvað varðar veður og virkni. 

Daginn áður, á fimmtudaginn 18. janúar, mun Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands, velta fyrir sér hversu algeng norðurljósin voru hér áður fyrr en hún hefur leitað norðurljósa í íslenskum heimildum fyrri alda. „Tóku Íslendingar áður fyrr eitthvað frekar eftir norðurljósunum við aðrar aðstæður en nú þegar áreitið var minna og myrkrið dýpra? Skildu þeir eftir sig sögur um norðurljós og bera slíkar sögur þá e.t.v. vott um hjátrú sem tengjast þeim,“ spyr Aðalheiður og leitar líka svara við þessum spurningum í erindi sem hún heldur á fimmtudaginn. Erindi Aðalheiðar er partur af fyrirlestrum Miðaldastofu Háskóla Íslands hefst kl. 16.30 í stofu 101 í Lögbergi.

„Fyrir Íslendingum eru norðurljósin hluti af hinum hversdagslega reynsluheimi en fyrir erlendum ferðamönnum sem falla í stafi og jafnvel bresta í grát við það eitt að sjá norðurljós í fyrsta skipti — þegar sá áralangi draumur rætist — eru þau ný og ævintýraleg upplifun; þau eru töfrum gædd,“ segir Aðalheiður.  

En þótt e.t.v. megi segja að erlendir ferðamenn hafi beint athygli Íslendinga að norðurljósunum hin síðari ár er ekki þar með sagt að þau hafi ekki verið okkur hugleikin hingað til.  „Íslenskar heimildir um norðurljós eru af ólíku tagi,“ segir Aðalheiður,  „hvort sem um er að ræða náttúrulýsingar, þjóðtrúarsagnir eða rómantískar náttúrumyndir í skáldskap. Í fyrirlestri mínum geri ég grein fyrir eðli þessara heimilda allt frá síðari hluta 16. aldar, þegar Oddur Einarsson Skálholtsbiskup lýsti norðurljósunum með eftirminnilegum hætti í riti sínu Qualiscunque descriptio Islandiae. Meðal annars verður dvalið við þjóðtrúarsagnir, þar sem norðurljósin voru talin fyrirboðar veðrabrigða, ógæfu og jafnvel dauða. Eftir það verður athyglinni beint að miðaldaheimildum þar sem leitast verður við að draga fram og varpa ljósi á valda texta. Hingað til hafa menn einkum stuðst við hina norsku Konungsskuggsjá, sem var skrifuð á bilinu 1250–60 og segir frá norðurljósum yfir Grænlandi. Frásögnin er því hvorki íslensk né beinlínis heimild um norðurljós yfir Íslandi. En þótt aðrar miðaldaheimildir séu um margt óljósari en frásögn Konungsskuggsjár má túlka goðsögur og sögur með goðfræðilegu ívafi sem svo að þar sé bústöðum goða, vætta og valkyrja líkt við norðurljós.“

Aðalheiður segist halda því fram í fyrirlestrinum að norðurljósasögur og trúarhugmyndir þeim tengdar hljóti að teljast hefðbundnar á Íslandi þótt heimildir séu eðlilega fleiri eftir því sem nær dregur nútímanum. „Ýmiss konar hjátrú tengist norðurljósunum sérstaklega og vera má að þau hafi verið innblástur goðsagna og tengd guðunum jafnt sem yfirnáttúrlegum öflum. Um elstu heimildirnar verður ekki fullyrt, en víst er að erlendir ferðamenn líkja þeim enn þann dag í dag við töfra og töfraheima og að með þeim hætti tengjast gamlar hugmyndir og nýjar.“

Aðalheiður Guðmundsdóttir er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún einkum fengist við miðaldabókmenntir með áherslu á fornaldarsögur Norðurlanda og tengingu þeirra við samevrópska sagnamenningu, munnlega hefð, rímur og fornminjar. 

Erindi Aðalheiðar er partur af fyrirlestrum Miðaldastofu Háskóla Íslands. Það verður flutt á íslensku og er öllum opinn.

Aðalheiður Guðmundsdóttir