Skip to main content
14. nóvember 2017

Rætt um stöðu hug- og félagsvísinda á fundi Aurora

""

Staða hug- og félagsvísinda í nútímanum var til umfjöllunar á fundi Aurora-samstarfsnetsins sem fram fór í University of East Anglia í Norwich í Englandi í liðinni viku. Samstarfsnetið fagnar eins árs afmæli um þessar mundir.

Háskóli Íslands tekur þátt í Aurora sem er samstarfsnet níu virtra evrópskra háskóla sem eiga það sameiginlegt að leggja í starfi sínu áherslu á hágæða rannsóknir, samfélagslega ábyrgð og að gera samfélögum betur kleift að takast á við áskoranir samtímans. Netið var sett á laggirnar í fyrrahaust og hafa skólarnir níu unnið að þróun þess síðan þá.

Hópur starfsmanna og stúdenta frá Háskóla Íslands sótti fund samstarfsnetsins við University of East Anglia í Norwich undir lok síðustu viku þar sem rætt var um hvernig skólarnir geta eflt samstarf sitt og lært hver af öðrum.  

Á seinni degi fundarins í Norwich var efnt til umræðna undir yfirskriftinni „What will the Humanities & Social Sciences do for us?“ Meðal þátttakenda í umræðunum var Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs. Rætt var um gildi þessara fræðasviða í samtímanum, hvernig mætti efla þau og sömuleiðis um leiðir til þverfræðilegrar samvinnu á þessum sviðum.

Upptöku af umræðum um stöðu hug- og félagsvísinda er hægt að nálgast á Facebook-síðu Aurora-samstarfsnetsins

Nánar um Aurora-samstarfsnetið og aðildarskóla
 

Frá umræðufundi Aurora-samstarfsnetsins um stöðu hug- og félagsvísinda.