Ráðstefna um gildi nanórannsókna við Háskóla Íslands  | Háskóli Íslands Skip to main content

Ráðstefna um gildi nanórannsókna við Háskóla Íslands 

5. september 2018

Nanótæknin hefur gerbreytt heiminum en öll snjalltæki sem við notum flest á degi hverjum, og hafa gerbreytt lífi okkar flestra í hinum vestræna heimi, byggja að verulegu leyti á uppgötvunum í nanótækni.  Í dag hófst alþjóðleg ráðstefna fremstu vísindamanna heims á sviði nanótækni í Háskóla Íslands en Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, er annar ráðstefnustjóra. Einn af aðalræðumönnum ráðstefnunnar er Theodore W. Berger, prófessor í lífeindaverkfræði við Háskólann í Suður Kaliforníu. Hann hefur leitt þverfræðilegt samstarf nokkurra háskóla sem snýst um þróun á örflögu sem ætlað er að bæta upp skemmdir í drekasvæði heilans sem er það svæði sem hýsir langtímaminnið sem er öllum afar mikilvægt. Skemmdir á drekasvæði í heila eru oft tengdar við flogaveiki, heilablóðfall og heilabilun eða Alzheimer-sjúkdóm. 

Markmið Bergers með rannsóknum sínum er að finna út hvernig drekasvæðið kóðar upplýsingar og gera lífhermilíkan af virkni taugakerfisins sem svo er unnt að nota í lifandi manneskju. Hugmyndin er þannig að láta lífhermilíkanið, sem komið er fyrir í örflögu í heila, virka eins og gervitaugakerfi en hluti af starfsemi heilans er þá yfirtekinn af flögunni á vélrænan hátt. Ítarlegar samanburðarrannsóknir hafa farið fram á dýrum, rottum og öpum, þar sem bornar hafa verið saman niðurstöður úr heilum heilbrigðra dýra og dýra þar sem drekasvæðið hefur orðið fyrir skerðingu og er svo enduruppbyggt með tækninni sem unnið er að. 

Alls eru yfir 40 erindi haldin á ráðstefnunni einkum um nanótækni sem tengist fjarskiptum og tölvutækni. Koma ráðstefnugestir frá 23 löndum, flestir frá Bandaríkjunum.

Nanótæknin snertir flesta fleti í fræðum og vísindum
Geta má þess að við Háskóla Íslands eru fjölmargar rannsóknir í gangi sem byggjast á nanótækni.  Í augnlækningum er t.d. lagt kapp á að draga úr notkun sprautunála með nanótækninni sökum áhættu og óþæginda. Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum við Háskólann, og Þorsteinn Loftsson, prófessor í lyfjafræði, hafa fundið leið til að meðhöndla sjúkdóma með augndropum í stað sprautu. 

Aðferð þeirra hefur vakið heimsathygli en þeir uppgötvuðu örsmáar agnir sem búa yfir mögnuðum eiginleikum. Þeir nota nanóefni, sem eru þúsundfalt minni en breidd á einu hári, til að flytja eða ferja augnlyf á áfangastað. Með nanótækni er þannig hægt að beina lyfjum á ákveðna staði í líkamanum, lengja verkun þeirra og draga úr aukaverkunum en Maria Dolores Moya Ortega vann einmitt doktorsrannsókn undir leiðsögn Þorsteins Loftssonar þar sem unnið var að hönnun og rannsóknum á svokölluðu nanó- og míkróhlaupi fyrir lyfjagjöf í augu, nef og munnhol. 

Már Másson, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands, hefur einnig vakið mikla athygli fyrir rannsóknir á þessu sviði. „Þótt mikill árangur hafi náðst í meðferð krabbameina á undanförnum áratugum eru áskoranirnar enn talsverðar, bæði þegar kemur að því að greina sjúkdóminn, fylgjast með árangri meðferðar og meðhöndla illvíg krabbamein. Nanótækin býður upp á algerleg nýja möguleika á bættri greiningu og betri meðhöndlun. Það er nú þegar komin lyf á markað sem byggja á nanótækni og enn fleiri eru á leiðinni,“ segir Már. 

Nanótæknin mikilvæg í fjarkönnun
Nanótæknin hefur einnig rutt sér til rúms í svokallaðri fjarkönnun en tæknin hefur gjörbreytt eðli hátæknimyndatökubúnaðar og virkni gervitungla. Fjarkönnun felst í því að taka stafrænar myndir, oftast úr mikilli hæð úr flugvélum eða gervitunglum, og vinna úr þeim fjölþættar upplýsingar. Fjarkönnunarrannsóknir eru afar mikilvægar, ekki síst þegar greina þarf ýmsar breytingar sem verða á umhverfinu.

Margir ætla t.d. að gervitungl séu gríðarstór, sem þau hafa auðvitað verið og sum um tíu tonn að þyngd, en með aukinni þróun og ekki síst með hagnýtingu nánó-tækninnar, hafa þau minnkað hratt. Mörg gervitungl sem nú svífa hátt yfir jörðinni eru t.d. innan við fjögur kílógrömm að þyngd og einungis 30 sentímetrar á lengd.

Ráðstefnan fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og má nálgast upplýsingar um hana á vef ráðstefnunnar.

Theodore W. Berger
gestir á ráðstefnu

Netspjall