Prófvarslan skemmtilegt starf og nemendur dásamlegt fólk | Háskóli Íslands Skip to main content

Prófvarslan skemmtilegt starf og nemendur dásamlegt fólk

19. desember 2018

Margar hendur vinna létt verk, segir máltækið og það á sannarlega við um prófahald í Háskóla Íslands sem er í senn umfangsmikið og fjölbreytt. Í þeirri vinnu leikur stór og öflugur hópur prófvarða lykilhlutverk í prófstofunum en hann vinnur að því að nemendum líði sem best á meðan á prófi stendur og að þeir fari að prófreglum. 

Jóhanna Pétursdóttir er ein af þeim sem sinnt hafa prófvörslu í stofum Háskólatorgs og kann vel við sig í starfinu. Við hittum hana við undirbúning síðasta prófsins í prófatörn desembermánaðar og ræddum við hana um starfið og hvernig það kom til að hún sóttist eftir prófvarðararstarfi. „Þetta kom þannig til að ég fór á eftirlaun 2015 en hafði þá verið grunnskólakennari frá árinu 1973. Maður nennir ekki að vera heima endalaust og vill hafa eitthvað fyrir stafni og því sótti ég um þetta starf. Ingimar, maðurinn minn, hafði verið að vinna í prófvörslunni og ég hermdi í raun bara eftir honum og hef bara mjög gaman af þessu,“ segir Jóhanna.

Jóhanna hefur sinnt prófvarðastarfinu í þrjú og hálft ár en maðurinn hennar, Ingimar Þorkelsson, í yfir áratug. „Við erum venjulega saman í stofu,“ segir hún og aðspurð hvort samkomulagið í prófvörslunni hjá þeim hjónum sé gott svarar hún að bragði: „Það ber ekki skugga á.“

Spurð að því hvað sé heillandi við starfið segir hún eitt það skemmtilegasta við það að hitta gamla nemendur sem hún kenndi í grunnskóla. Nýlega hafi nemandi um fimmtugt setið í prófi hjá henni og hnippt í hana og spurt: „Þú varst fyrsti kennarinn minn, manstu eftir mér?“ sem hún og gerði.

Samskipti við stúdenta eru gefandi og ganga vel að sögn Jóhönnu. „Þetta er upp til hópa dásamlegt fólk. Þau eru auðvitað smá stressuð að fara í próf, maður finnur það, en þau róast þegar þau eru sest og þetta fer allt vel fram hérna,“ segir Jóhanna sem alla jafna hefur umsjón með annarri af tveimur stærstu prófastofunum á Háskólatorgi ásamt manni sínum en þar þreyta allt að 80 nemendur próf í hverri lotu.

Stærstur hluti prófvarða er eftirlaunafólk en það er til marks um það hvað hópurinn er samheldinn og góður að fólk sækir í störfin ár eftir ár. „Þetta er skemmtilegur hópur, fjölmargir gamlir kennarar sem eru ánægðir að fá að vinna. Við erum búin að vera í svo skemmtilegu starfi að við erum ekki tilbúin að vera bara heima,“ segir hún enn fremur og bætir við að vonandi fái hún að sinna þessu skemmtilega starfi í einhver ár í viðbót. 

Jóhanna Pétursdóttir