Skip to main content
17. júní 2019

Pöddurnar leynast í laufinu

Ein allra vinsælasta gangan í röðinni Með fróðleik í fararnesti ár hvert er skordýraskoðun í Elliðaárdal og nú stefnir Háskóli Íslands enn á ný í þessa árvissu fróðleiksferð með Ferðafélagi barnanna sem er angi innan Ferðfélags Íslands. Eins og alltaf er þátttaka alveg ókeypis. Þrátt fyrir að margir hafi ímugust á skordýrum þá er alveg augljóst á vinsældunum að mörgum þykja þau fögur og enn fleiri eru spenntir að skoða þau í návígi og fá gagnlegar upplýsingar um þessi mögnuðu kvikindi frá vísindamönnum Háskóla Íslands. 

Gísli Már Gíslason, prófessor í vatnalíffræði við Háskólann og fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands, mun leiða skordýraskoðunarferðina eins og oft áður og með honum verða doktorsnemar í líffræði við skólann sem vita allt um skordýr eða því sem næst. 

Ferðin verður á miðvikudaginn kemur, þann 19. júní nk., kl. 18 og munu þá kátir krakkar og fjölskyldur þeirra leita skordýra í laufi og vatni með Gísla Má og félögum í Háskóla Íslands.

Skordýr stærsti flokkur dýra á jörðinni
„Skordýr eru stærsti flokkur dýra í heiminum en um 85% allra dýrategunda á jörðinni eru skordýr,“ segir Gísli Már. „Það má því reikna með fjölbreyttu lífríki við Elliðaárnar auk þess sem vorið hefur verið hagstætt þessari tegund dýra sem eykur á fjölda einstaklinga og sýnilegra tegunda.“  

Lagt verður af stað frá gömlu rafstöðinni við Elliðaár kl. 18 miðvikudaginn 19. júní og er gert ráð fyrir að skoðunarferðin taki um það bil tvær klukkustundir. Göngumenn eru hvattir til að taka með sér stækkunargler til að njóta betur þeirra undra sem fyrir augu ber en vísindamenn Háskólans mæta líka með smásjár og allskyns græjur til að auka á upplifun fólks. Ferðin er farin í samvinnu Háskólans og Ferðafélags barnanna undir heitinu Með fróðleik í fararnesti.

Margt að sjá með berum augum
Ljóst er að margt forvitnilegt verður að sjá á þriðjudag enda segir Gísli Már að stofnstærðir skordýra séu miklu stærri en annarra dýra. „Þess má geta,“ segir Gísli, „að í Mývatni eru um hundrað þúsund mýlirfur á fermetra, þegar stofnar eru stærstir, og ein milljón á fermetra af bitmýi í Laxá í Suður Þingeyjarsýslu þegar mest er.“ 

Að Gísla sögn eru skordýr stærsti keppinautur mannsins um fæðu og áætlað er að í Bandaríkjunum fari um 20% af nytjaplöntum í skordýr, m.a. hveiti, bygg, maís og ýmsar aðrar plöntur sem menn nýta sér sem fæðu. „Í þriðja heiminum er þetta enn meira. Eytt er milljörðum króna í heiminum á ári hverju í að halda skordýrum niðri.“

Gísli Már segir að skordýr séu engu að síður gríðarlega mikilvæg í lífríkinu. Þau séu fæða dýrategunda sem við neytum, t.d. vatnafiska, og að auki fæða margra fuglategunda. „Skordýr frjóvga auk þess allar blómplöntur, og ef þeirra nyti ekki við, þá væru blómplöntur ekki til. Þau gegna einnig því hlutverki að brjóta niður lífrænar leifar í náttúrunni, t.d. hræ dýra og dauðar plöntur. Þessu til viðbótar gegna skordýr mikilvægu hlutverki í rannsóknum á erfðafræði.“

Nýjar pöddur hafa numið land
Að sögn Gísla Más hafa skordýr þróast með plöntum en þau urðu fyrst allra dýra til að laga sig að landlífi. „Þau hafa ýmsar varnir gegn tapi á vatni, ekki síst í skurninni utan um líkamann, sem jafnframt er stoðgrind skordýrsins.“ 

Margir hafa tekið eftir nýjum skordýrum hér undanfarin ár en að sögn Gísla Más hefur tegundum fjölgað mikið á Íslandi síðustu áratugina. Ekki er mörgum skemmt yfir þessu. Í því sambandi má nefna að sex geitungategundir hafa numið hér land, sem geta stungið fólk, og þrjár tegundir humla frá árinu 1970. 

„Hlýnun getur valdið því að fleiri skordýrategundir nái upp stofni hérlendis. Á síðustu þrjátíu árum hafa bæst við þrjú til fjögur hundruð nýjar tegundir og eru tegundir stöðugt að bætast við. Mest áberandi á Íslandi eru nýjar humlur og geitungar, ein tegund af lúsmýi sem bítur fólk, ein vorfluga auk nýrra fiðrilda. Áætla má að tegundarfjölbreytni skordýra hafi aukist um 12 til 17 prósent bara frá árinu 1992,“ segir Gísli Már sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á lífríki vatna. Þaðan kviknaði einmitt áhugi hans á þessari fjölbreyttu tegund dýra.  

Hlýrra lofslag breytir lífríkinu á Íslandi
Gísli Már er frábær fararstjóri og einstæklega næmur á hvernig koma á upplýsingum til unga fólksins. Hann hefur enda verið vinsæll kennari í Háskóla unga fólksins þar sem grunnskólabörn sitja í hálfgerðu háskólanámi í Háskóla Íslands í byrjun sumars. Þar kennir Gísli Már vatnalíffræði og beinir oft sjónum að lífríki Tjarnarinnar sem er eiginlega við útitröppurnar á Háskólanum. Gísli Már hefur miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á lífríki Tjarnarinnar og á önnur vatnavistkerfi og á skordýralíf. 

„Eitt af stærstu viðfangsefnum vísindanna, bæði á Íslandi og víðar um heiminn, eru rannsóknir á áhrifum loftslagshlýnunar á bæði samfélög og lífríki,“ segir Gísli Már. „Vatnavistkerfi heimsins koma þar mikið við sögu enda hafa þau mikla þýðingu bæði fyrir manninn og aðrar lífverur.“

Í meira en áratug hefur Gísli Már rannsakað ásamt samstarfsfólki sínu hvaða áhrif loftslagshlýnun og áburðarefnamengun hefur á lífríki straumvatna hér.  „Hækkandi hitastig boðar ekki gott fyrir lífríkið,“ segir Gísli Már og hleypir í brýnnar.  „Rannsóknir okkar hafa þegar leitt í ljós að hækkandi hiti í straumvatni breytti tegundasamsetningu og dró úr tegundafjölbreytileika. Þéttleiki bitmýs og vatnabobba óx t.d. með vaxandi hita en smávaxnari tegundum fækkaði. Hækkandi hiti getur því dregið úr líffræðilegum fjölbreytileika í ám og vötnum á Íslandi,“ segir Gísli Már.

„Eitt af stærstu viðfangsefnum vísindanna, bæði á Íslandi og víðar um heiminn, eru rannsóknir á áhrifum loftslagshlýnunar á bæði samfélög og lífríki,“ segir Gísli Már. „Vatnavistkerfi heimsins koma þar mikið við sögu enda hafa þau mikla þýðingu bæði fyrir manninn og aðrar lífverur.“ MYND/Kristinn Ingvarsson

Bráðnun jökla og breytingar á ferskvatni
Gísli Már er gríðarlegt náttúrubarn en hann ólst upp vestur á Hvallátrum og þekkir því návígið við fjöruna og fjöllin og ekki síst fuglabjörgin en Látrabjarg er nánast við bæjarþilin á Hvallátrum. Auk þess að vera aufúsugestur í verkefnum með Ferðafélagi barnanna hefur Gísli leitt frægar ferðir um Látrabjarg þar sem mjög gat reynt á lofthrædda. En hann er einnig þekktur fyrir fróðlegar göngur sínar um Þjórsárver. Það er stundum sagt að gangir þú með Gísla Má þá getirðu bent á hvað sem er í náttúrunni og spurt: „Hvað er þetta Gísli?“ og það stendur aldrei á svari. 

Undanfarin ár hefur Gísli Már stundað rannsóknir á áhrifum jöklabráðnunar en hopandi jöklar um heim allan hafa nú djúpstæð áhrif á lífríki í ferskvatni og á strandsvæðum samkvæmt rannsóknum hans og samstarfsmanna. „Ófyrirsjáanleg áhrif af minnkun jökla tengjast losun mengandi efna sem bundin eru í jökulísnum, þar á meðal frá iðnaðarútblæstri. Þetta er t.d. kvikasilfur, illgresis- og meindýraeitur auk þrávirkra lífrænna efna. Hér á landi gætu þessi efni einnig tengst eldgosum frá fyrri öldum. Þessi efni ferðast með jökulánum til svávar og geta valdið skaða á leið sinni þangað og svo áfram í hafinu.“ Gísli Már segir að áhrifin af hopun jöklanna verði miklu meiri en menn átti sig almennt á, ekki síst á náttúrulegt umhverfi, þar á meðal á líffræðilega fjölbreytni tegunda, t.d. skordýra sem við ætlum að skoða í návígi við Elliðaárnar.  

Sum sé, miðvikudaginn 19. júní kl. 18 munu kátir krakkar og fjölskyldur þeirra leita skordýra í laufi og vatni með Gísla Má og félögum í Háskóla Íslands. Líklega mun göngufólk sjá mýflugur, humlur, feta, blaðlýs, bjöllur og fjölmargar tegundir af lirfum, t.d. fiðrildalirfur, mýlirfur og vorflugulirfur. Gott er að mæta tímanlega með stækkunargler og krukkur fyrir skordýrin. 

Best er að notast við almenningssamgöngur en það er auðvitað einfalt að leggja bílunum á stæðum í nágrenni Gömlu rafstöðvarinnar við Elliðaár. Mikilvægt er að fara varlega á bílum innan um gangandi börn. 

Allir eru velkomnir og hvattir til að koma með góða skapið og ganga vel um svæðið sem er sannkölluð perla í borgarlandinu. 

Með fróðleik í fararnesti
Eins og áður segir er gangan hluti af verkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands sem hófst á aldarafmæli skólans árið 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í þessum áhugaverðu gönguferðum. Markmiðið með þeim er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskóla Íslands og Ferðafélagsins.

Frá pöddugöngu í fyrra