Skip to main content
27. maí 2020

Plasmasetur byltir rannsóknum í jarðefnafræði hérlendis

Frá hreinrými

Plasmasetur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands var opnað í gær, þriðjudaginn 26. maí, í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. 

Setrið mun gegna afar mikilvægu hlutverki í rannsóknum á sviði jarðefnafræði hérlendis og er því um mikil tímamót að ræða fyrir fagið, segir Sæmundur Ari Halldórsson, fræðimaður hjá Jarðvísindastofnun og einn af forvígismönnum hins nýja seturs. „Plasmasetrið mun styrkja fjölda rannsóknaverkefna sem unnin eru í samstarfi við vísindamenn hér heima og erlendis, stórbæta öryggi og tryggja vandaðri efnagreiningar. Á sama tíma koma þessi nýju rannsóknarrými vafalítið til með að opna á fjölda tækifæra til framtíðarrannsókna á sviði jarðefnafræði og tengdra greina.“

Plasmasetrið inniheldur m.a. fullkomið hreinrými en unnið hefur verið að uppbyggingu þess á undanförnum misserum. „Aðgangur að slíku rými mun í raun umbylta rannsóknum á þessu sviði hérlendis. Þar höfum við m.a. sett upp sérhæfðar, sýruþolnar og málmsnauðar innréttingar ásamt öryggisskápum. Rýmið er því afar mikilvægt fyrir jarðefnafræðirannsóknir því það gerir vísindamönnum m.a. kleift að nota snefilefni, sem finnast í afar litlu magni í náttúrunni, til að skilja þau ferli sem stjórna dreifingu frumefna í gegnum jörðina.“ Auk hreinrýmisins inniheldur plasmasetrið þrjú svokölluð ICP-tæki (e. inductively coupled plasma) sem nýtt eru til að efnagreina aðalefni og snefilefni í vökvum og bergi og greiningar á samsætuhlutföllum frumefna.

Samhliða þessum framkvæmdum fóru fram gagngerar endurbætur á loftræstilögnum í þeim hluta Öskju sem hýsir rýmið. „Við höfum átt farsælt samstarf við Framkvæmda- og tæknisvið Háskóla Íslands sem skipti sköpum því verkefnið var tæknilega flókið.“ 

Verkefnið var fjármagnað með styrk frá Rannís en Framkvæmda- og tæknisvið Háskóla Íslands fjármagnaði nauðsynlegar breytingar á húsnæði. Auk þess fékkst styrkur frá Rannís til að endurnýja og bæta tækjakost.

Í athöfninni í gær héldu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, stutt erindi auk þess sem Sæmundur Ari sagði gestum lítilega frá setrinu og tók litla hópa í skoðunarferð.
 

frá plasmasetri
Jón Atli Benediktsson, Sigurður Magnús Garðarsson og Sæmundur Ari Halldórsson
Gestir við opnun plasmasetursins