PISA í hnotskurn í nýrri fundaröð | Háskóli Íslands Skip to main content
30. janúar 2020

PISA í hnotskurn í nýrri fundaröð

PISA í hnotskurn – Staða íslenskra nemenda í alþjóðlegum samanburði er heiti á fundaröð sem hefur göngu sína þann 3. febrúar og lýkur 9. mars næstkomandi. Haldnir verða alls fjórir fundir á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Menntamálastofnunar og Kennarasambands Íslands þar sem markmiðið er að kafa dýpra í niðurstöður PISA-rannsóknarinnar 2018.

Fundirnir verða haldnir á mánudögum kl. 15.00-16.30 í stofu H207 í húsakynnum Menntavísindasviðs við Stakkahlíð. Öllum fundunum verður streymt.

Dagskráin verður sem hér segir: 

Mánudagur 3. febrúar
Greining á stöðu lesskilnings
Guðmundur Bjarki Þorgrímsson, sérfræðingur við Menntamálastofnun
Sigríður Ólafsdóttir, lektor og Baldur Sigurðsson, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Sigurrós Eiðsdóttir, íslenskukennari í Réttarholtsskóla

Upptaka frá fundinum

Mánudagur 17. febrúar
Greining á stöðu læsis á náttúruvísindi
Guðmundur Bjarki Þorgrímsson, sérfræðingur við Menntamálastofnun
Auður Pálsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Mánudagur 2. mars
Greining á stöðu læsis á stærðfræði
Guðmundur Bjarki Þorgrímsson, sérfræðingur við Menntamálastofnun
Freyja Hreinsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Mánudagur 9. mars
PISA- og hvað svo?
Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands
Grunnskólinn: Áskoranir og tækifæri
Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Öll velkomin meðan húsrúm leyfir.

Um PISA

Niðurstöður PISA-könnunarinnar 2018 voru kynntar í lok síðasta árs. Þar kom meðal annars fram að lesskilningur barna er mun lakari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og töluvert undir meðaltali OECD-ríkjanna. Lesskilningur og læsi á stærðfræði og náttúrufræði hefur lítið breyst frá síðustu PISA-könnun fyrir þremur árum. Þriðjungur drengja mælist ekki með grunnhæfni í lesskilningi og í heildina nær fjórðungur nemenda ekki viðmiðum. Frammistaða íslenskra nemenda er talsvert misjöfn milli landshluta en nemendur á höfuðborgarsvæðinu stóðu sig betur en nemendur í öðrum landshlutum. Þá er það áhyggjuefni hversu fáir teljast afburðanemendur. 

Menntamálastofnun sá um framkvæmd PISA-rannsóknarinnar sem lögð var fyrir alla nemendur í 10. bekk vorið 2018. Samstarf hefur verið milli Menntavísindasviðs og Menntamálastofnunar um greiningu gagnanna og túlkun niðurstaðanna.

PISA-rannsóknin er lögð fyrir í 72 löndum um heim allan. Könnuð er frammistaða nemenda í stærðfræðilæsi, lesskilningi og náttúrulæsi. Könnunin er framkvæmd á þriggja ára fresti og gefur vísbendingar um breytingar á frammistöðu nemenda yfir tíma ásamt því að meta stöðu þeirra við lok skyldunáms.

Mynd frá Háskólatorgi.