Skip to main content
1. febrúar 2020

Ótal víddir jafnréttis á Jafnréttisdögum

Staða menntaðra kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði, viðbrögð stofnana og fagráða í kjölfar #MeToo, konur í verkfræði og vísindum, útlit kynsegin fólks, fatlaðar og langveikar konur í háskólanámi, háskólanám og innflytjendur, jafnréttis- og regnbogavöfflur, hinsegin femínísk kynfræðsla og pælingar um umhverfið, jafnrétti og framtíðina er aðeins brot af afar fjölbreyttum viðburðum og uppákomum sem finna má á Jafnréttisdögum sem háskólar landsins standa saman að dagana 3.-7. febrúar.

Jafnréttisdagar, sem fara nú fram í tólfta sinn, tvinna saman hinar ýmsu víddir jafnréttis þar sem fjölbreytileiki, forréttindi, jafnréttisbarátta, vald og mismunun og tengsl jafnréttis og umhverfismála verða sett undir smásjána. Markmiðið er að vekja og þróa umræðu um jafnréttismál, stuðla að auknum skilningi á jafnrétti í víðum skilningi og virkja slagkraft þeirra fjölmörgu aðila sem vinna að jafnrétti.

Skipuleggjendur Jafnréttisdaga nálgast viðfangsefnin með fjölbreyttum hætti, svo sem með listviðburðum, fundum og málþingum, ákalli og verkfalli, opnu húsi, barsvari, ræðukeppni, vinnustofum og uppistandi.

Viðburðir fara fram í öllum skólunum sjö og er dagskráin samvinnuverkefni jafnréttisfulltrúa skólanna, fulltrúa stúdenta og hinna ýmsu sérfræðinga úr starfsliði skólanna og utan þeirra. Yfirlit yfir hina fjölbreyttu viðburði skólanna má m.a. finna á Facebook-síðu Jafnréttisdaga:

Í Háskóla Íslands verður boðið upp á fjölbreytta viðburði alla daga vikunnar og er hægt að kynna sér dagskrána skólans á vef hans.

Alla viðburði Jafnréttisdaga má jafnframt finna á Facebook-síðu daganna.

Ókeypis er á alla viðburði Jafnréttisdaga og öll velkomin.
 

Nemendur við Háskólatorg