Óskað eftir tilnefningum til jafnréttisverðlauna Aurora | Háskóli Íslands Skip to main content

Óskað eftir tilnefningum til jafnréttisverðlauna Aurora

26. júní 2018

„Okkur langar til að vekja athygli á að Háskóla Íslands gefst tækifæri til að senda inn tilnefningar til Aurora jafnréttisverðlaunanna. Lokadagurinn til að senda inn er fimmtudagurinn 28. júní,“ segir Arnar Gíslason, annar tveggja jafnréttisfulltrúa Háskóla Íslands.  Háskólinn er hluti af Aurora-samstarfsnetinu en í því eru níu framúrskarandi háskólar í Norður-Evrópu. 

„Samstarfið við Aurora-skólana snýst m.a. um að deila góðum hugmyndum og starfsháttum og skapa þar með jöfn tækifæri fyrir starfsmenn og nemendur háskólanna. Markmið Aurora jafnréttisverðlaunanna er að koma auga á og greina frá góðum verkefnum sem vinna að sýn Aurora samstarfsins. Góðar hugmyndir geta þannig nýst öðrum skólum til að efla sína starfsemi enn frekar,“ segir Arnar. 

Sveinn Guðmundsson, sem deilir embætti jafnréttisfulltrúa Háskólans með Arnari, tekur í sama streng. „Verðlaunaverkefni síðasta árs kom frá háskólanum í Duisburg-Essen og snýst um stuðning við nemendur sem eru fyrst í sinni fjölskyldu til að fara í háskólanám, m.a. með áherslu á nemendur af erlendum uppruna. Í verðlaun var ferð til Aurora-samstarfsháskóla að eigin vali og sigurvegarar síðasta árs völdu að heimsækja okkur hér í Háskóla Íslands og kynna sér starfsemi hans,“ segir Sveinn. 

Hvernig verkefni má tilgreina?
Tilnefna má verkefni af ýmsum gerðum og stærðargráðum en þau þurfa að tengjast Háskóla Íslands að einhverju leyti. Tilnefningin þarf að innihalda lýsingu á verkefninu og samantekt á niðurstöðunum þess. Nefnd skipuð aðilum innan Aurora samstarfsins fer yfir tilnefningar og velur eitt eða fleiri verkefni úr innsendum tilnefningum.

Verkefnin þurfa enn fremur að:
•    Takast á við jafnrétti og fjölbreytileika
•    Auka jafnrétti með fjölbreytileika og virðingu
•    Skapa tækifæri fyrir jaðarhópa         
•    Hagsmunaaðilar þurfa að taka beinan þátt í verkefninu og eiga í samskiptum við markhóp verkefnisins
•    Innihalda aðgerðir sem miða að langtímaáhrifum og breytingum
•    Skapa umhverfi sem einkennist af virðingu
•    Leggja áherslu á fjölbreytileika sem styrk háskólasamfélagsins, sérstaklega í tengslum við samtvinnun mismunabreyta (intersectionality)
•    Innihalda frumlegar eða nýstárlegar aðferðir

Verkefni sem hafa verið tilnefnd áður til verðlaunanna má tilnefna aftur ef verulegar framfarir hafi átt sér stað og að verkefnið hafi þróast og vaxið á skjalfestan hátt.

Fresturinn rennur út 28. júní
Að sögn þeirra Arnars og Sveins getur hver háskóli innan Aurora samstarfsins tilnefnt allt að þrjú verkefni. „Starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands eru hvött til að senda inn tillögur að verkefnum sem háskólinn gæti tilnefnt til verðlaunanna. Ef fleiri en þrjár hugmyndir að tilnefningum berast mun Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands og jafnréttisfulltrúi fara yfir þær og leggja fyrir rektor til að velja þær þrjár sem sendar verða inn fyrir hönd háskólans.“ 

Til að tilnefna verkefni er beðið um að fimm til tíu línur fylgi með sem lýsi verkefninu á hnitmiðaðan hátt. 

Tillögur á að senda á netfangið jafnretti@hi.is fyrir 28. júní nk.

Aurora er net níu evrópskra háskóla í fremstu röð
Aurora, er eins og áður sagði, samstarfsnet níu virtra evrópskra háskóla sem eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á hágæða rannsóknir, samfélagslega ábyrgð og að gera samfélögum betur kleift að takast á við áskoranir samtímans. 

Háskólar í Aurora eiga það einnig sameiginlegt að vera mjög öflugir í rannsóknum, samkvæmt mati Times Higher Education University Ranking (THE), sem birtist meðal annars í miklum áhrifum rannsókna sem stundaðar eru innan skólanna. Matslisti THE er einn sá virtasti í heimi á þessu sviði.

Háskólar í Auroa eru auk Háskóla Íslands, Grenoble-Alpes háskóli (Frakklandi), Háskólinn í Aberdeen (Skotlandi), Háskólinn í Antwerpen (Belgíu), Háskólinn í Björgvin (Noregi), Háskólinn í Duisburg-Essen (Þýskalandi), East Anglia háskóli (Englandi), Gautaborgarháskóli (Svíþjóð) og Vrije-háskóli í Amsterdam (Hollandi).

Merki Aurora
Verðlaunaverkefni síðasta árs kom frá háskólanum í Duisburg-Essen. Í verðlaun var ferð til Aurora-samstarfsháskóla að eigin vali og sigurvegararnir völdu að heimsækja Háskóla Íslands. Hér er fulltrúi þeirra, Gabriele Spengler, ásamt Jóni Atla Benediktssyni rektor, Steinunni Gestsdóttur, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, Elísabetu Brynjarsdóttur, forseta Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og jafnréttisfulltrúunum Sveini Guðmundssyni og Arnari Gíslasyni. MYND/Kristinn Ingvarsson

Netspjall