Skip to main content
1. apríl 2020

Örsögur frá Rómönsku-Ameríku í nýrri bók SVF

Út er komin bókin „við kvikuna – örsögur frá Rómönsku-Ameríku“ í útgáfu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands.

Örsagan á sér langa hefð í álfunni og sýnir bókin gróskuna og fjölbreytileikann sem hún hefur öðlast í meðförum rithöfunda álfunnar. Bókin er sýnisbók og geymir alls kyns sögur. Oft er stutt í húmorinn, háðið og fantasíuna, stundum vilja sögurnar bíta og koma við kvikuna. Sögurnar í bókinni eru 156 talsins eftir 49 höfunda frá Rómönsku-Ameríku, sú elsta er frá 1893 og sú yngsta frá 2014.

Kristín Guðrún Jónsdóttir, dósent í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, valdi sögurnar, þýddi og skrifaði inngang. Ritstjóri var Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor við sömu deild.  Háskólaútgáfan sér um dreifingu bókarinnar.

Í Hugvarpi – hlaðvarpi Hugvísindasviðs Háskóla Íslands má fá nasasjón af örsögum bókarinnar. Það eru þau Rebekka Þráinsdóttir og Jón Thoroddsen sem lesa.  
 
Útgáfu bókarinnar verður fagnað þegar samkomubanni á tímum kórónuveirunnar verður aflétt. Bókin er fáanleg í helstu bókaverslunum og einnig er hægt að panta hana á vef Bóksölu stúdenta