Skip to main content
14. september 2016

Opið íslenskunámskeið á snjalltækjum

""

Nýtt íslenskunámskeið fyrir snjalltæki var opnað á vegum Icelandic Online í gær. Við sama tækifæri var opnað fyrsta netnámskeiðið í færeysku, faroeseonline.fo, sem byggir á grunni Icelandic Online.

Fyrsta íslenskunámskeiðið á Icelandic Online var opnað til notkunar 2004 en þau eru nú orðin sjö að tölu. Námskeiðin eru öllum opin til notkunar gegnum sérhannað kerfi til tungumálakennslu. Yfir 166 þúsund manns, bæði hér á landi og um allan heim, hafa heimsótt námskeiðin en 45 þúsund þeirra eru virkir notendur og þriðjungur þeirra á Íslandi. Auk þess að vera notuð í sjálfsnámi eru námskeiðin einnig hluti af skipulögðu námi við Háskóla Íslands og erlenda háskóla þar sem nútímaíslenska er kennd.

Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor og verkefnisstjóri Icelandic Online, segir að þetta sé mikilvægt framlag Háskóla Íslands til þjónustu við innflytjendur sem hingað komi sem nú geti byrjað að læra íslensku strax við komuna til landsins í gegnum snjalltæki, þeim að kostnaðarlausu.

Vinna við að forrita námskeiðið fyrir snjalltæki hófst fyrir tveimur árum að hvatningu forseta Íslands og rektors Háskóla Íslands. Nemar í tölvunarfræði hafa þróað nýtt forrit fyrir námskeiðin undir leiðsögn Patrick Thomas, mál- og tölvunarfræðings, sem hefur verið verkefnisstjórninni til ráðgjafar allt frá því að fyrsta Icelandic Online námskeiðið var unnið. Fyrsta endurforritaða námskeiðið var síðan opnað til almennrar notkunar í gær. Þetta námskeið kallast Bjargir (e. survival course) og er ætlað innflytjendum sem eru byrjendur í íslensku. Vinna við að endurforrita önnur námskeið er hafin.

Össur Ingi Jónsson, forritari hjá Icelandic Online, var nemandi í tölvunarfræði þegar hann hóf að vinna við verkefnið. Hann segir að nú hafi verið gerðar nokkrar breytingar á vefnum fyrir utan snjalltækjavæðinguna. Kennarar geti nú t.d. bætt við og breytt námskeiðum með auðveldari hætti og vefurinn sé auk þess ekki lengur skrifaður fyrir íslensku sérstaklega. Það gefi okkur kleift að bjóða námskeið í öðrum tungumálum en íslensku líkt og gert hefur verið í samvinnu við Fróðskapasetur Færeyja.

Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt og verkefnisstjóri Icelandic Online, segir að upphaflega hafi markmið verkefnisins verið að veita fólki tækifæri til að læra íslensku hvar sem það væri statt en síðan hafi það líka orðið mjög mikilvægt í starfi háskólans, bæði við kennslu og rannsóknir. Hún segir mikla vinnu liggja að baki kennslufræði Icelandic Online og tæknilegri útfærslu. Áhugi á kerfinu sem greina megi hjá öðrum þjóðum sé til kominn vegna þess að kerfið hafi sannað sig og nemendur nái árangri með námskeiðunum. Búið sé að úthugsa kennslufræðina, tæknina og innihaldið og því megi spara sér margra ára vinnu sem kosti bæði mikinn tíma og peninga við þróun námskeiða í öðrum tungumálum. Þetta hafi Fróðskapasetur Færeyja nú þegar nýtt sér og Háskólinn í Helsinki kannar nú möguleikann á að nýta kerfið til að kenna Finnlands-sænsku. Verið sé að skoða möguleika á því að bjóða upp á fleiri tungumál, t.d. í samvinnu við námsbraut í þýsku og segir Kolbrún aðspurð að ef rétt verði á málum haldið sé ekkert því til fyrirstöðu að Icelandic Online geti orðið atvinnuskapandi verkefni hér á landi.

Þróunarstarfi við Icelandic Online er ekki lokið því að nú er framundan vinna við að þróa enn öflugra vöktunarkerfi til að geta mælt árangur í smáatriðum, t.d. hvernig nemendur vinna, hvað veitist þeim erfiðast og hvort kennslufræðin skili tilætluðum árangri. Háskóli Íslands er þegar þátttakandi í alþjóðlegri umræðu um virkni opinna vefnámskeiða á háskólastigi.

Icelandic Online er samstarfsverkefni Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Auk rektorsskrifstofunnar og þeirra stofnana sem standa að IOL hafa Vinnumálastofnun og Nordplus voksen og Nordplus sprog áætlanirnar stutt endurforritun IOL og samstarf verkefnisstjórnarinnar við Fróðskaparsetrið í Færeyjum og Helsinkiháskóla.

Hér má skoða myndir frá opnuninni.

Icelandic Online
""
Icelandic Online
""