Skip to main content
27. janúar 2023

Opið fyrir umsóknir í frumkvöðlahraðallinn HÍ - AWE fyrir konur 

Opið fyrir umsóknir í frumkvöðlahraðallinn HÍ - AWE fyrir konur  - á vefsíðu Háskóla Íslands

-    Hraðallinn er nú haldinn í þriðja sinn 
-    Kynningarfundur haldinn 31. janúar kl. 12.30 - Hluti af dagskrá Atvinnudaga HÍ

Háskóli Íslands stendur fyrir frumkvöðlahraðlinum Academy for Women Entrepreneurs (AWE) í samvinnu við Sendiráð Bandaríkjanna í þriðja sinn en nú þegar er byrjað er að taka við umsóknum. Bæði einstaklingar og lið geta tekið þátt í hraðlinum og frestur til að skila inn umsókn um þátttöku rennur út 9. febrúar nk. Kynningarfundur fyrir hraðalinn fer fram í Fenjamýri í Grósku þriðjudaginn 31. janúar kl. 12.30 til 13.

Markmið hraðalsins er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki, auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans á Íslandi og efla tengslanet kvenna. Mikil aðsókn hefur verið að hraðlinum og hefur þátttaka í honum skilað konum ánægjulegum árangri við að koma nýsköpunar- og viðskiptahugmyndum sínum á laggirnar. 

AWE-verkefnið er í boði í yfir 80 löndum víða um heim á vegum bandarískra stjórnvalda en Ísland er fyrst norrænu ríkjanna til að taka þátt í því. Að skipulagningu hraðalsins hér á landi koma einnig Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) og Samtök kvenna af erlendum uppruna (W.O.M.E.N). Fida Abu Libdeh, forstjóri og annar stofnenda GeoSilica, og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, framkvæmdastjóri Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, eru mentorar í gegnum hraðalinn auk þess sem sérfræðingar innan og utan háskólans taka þátt í kennslu og styðja við bakið á þátttakendum. 

Konur á öllum aldri geta sótt um að taka þátt í hraðlinum og fulltrúar um 20 viðskiptahugmynda verða valdar til þátttöku. Bæði einstaklingar og teymi geta sótt um og eru konur af erlendum uppruna og konur af landsbyggðinni sérstaklega hvattar til að sækja um. Ferðastyrkir verða í boði fyrir þátttakendur sem búsettir eru á landsbyggðinni en hraðallinn fer að hluta til fram á netinu. 

Æskilegt er að umsækjendur hafi viðskiptahugmynd sem þróuð verði í gegnum námskeiðið eða hafi nýlega stofnað fyrirtæki sem hefur gagn af því að fara í gegnum hraðalinn. Frumkvöðlahraðallinn er tilvalinn fyrir frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref og nýta sér þátttöku sína við mótun hugmynda og við að koma þeim í framkvæmd. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu verkefnisins

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands segir að afar ánægjulegt sé að halda hraðalinn í þriðja sinn með liðsinni Sendiráðs Bandaríkjanna og stjórnvalda. „Það hefur ævintýri líkast að fylgjast með því hvernig þeim konum, sem tekið hafa þátt í hraðlinum, hefur gengið með verkefni sín. Þátttakendur hafa aflað sér styrkja og hlutafjár og þróað áfram sínar viðskiptahugmyndir eða haslað sér völl á nýjum vettvangi. Háskóli Íslands leggur ríka áherslu á nýsköpun og jafnrétti í öllu starfi sínu og því erum við afar stolt af þessu verkefni og samstarfinu við Sendiráð Bandaríkjanna, FKA og Samtök kvenna af erlendum uppruna.“ 

„Við erum ánægð að geta haldið áfram árangursríku samstarfi okkar við Háskóla Íslands með AWE-hraðalinn í þriðja sinn. Þetta er afburðaverkefni! Fyrrverandi þátttakendur hafa komið á fót árangursríkum fyrirtækjum á fjölbreyttum vettvangi, þar með talið í tækni, líftækni, landbúnaði, heilbrigðisþjónustu, tískuiðnaði, ferðamennsku, fasteignageiranum, þjónustugeirum og fjölmörgu öðru. AWE-hraðallinn gefur frumkvöðlakonum möguleika á að fá þjálfun, stuðning, aðgengi að nýjum tengslanetum og kennslu í að stofna og stækka fyrirtæki með góðum árangri. Ef þú ert kona með lítið fyrirtæki eða góða viðskiptahugmynd, þá hvet ég þig til að sækja um!“ segir Carrin F. Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. 

Kynningarfundur um HÍ - AWE hraðalinn verður haldinn Fenjamýri í Grósku þriðjudaginn 31. janúar kl. 12.30 til 13 en einnig verður hægt að horfa á hann á Zoom, eftir fundinn, á vefs hraðalsins. Kynningarfundurinn er hluti af Atvinnudögum háskólans. 

Stór og öflugur hópur kvenna tók þátt í nýsköpunarhraðlinum Academy for Women Entrepreneurs (AWE) á síðasta ári.