Skip to main content
27. ágúst 2021

Önnu Stefánsdóttur veitt heiðursdoktorsnafnbót við Hjúkrunarfræðideild

Önnu Stefánsdóttur veitt heiðursdoktorsnafnbót við Hjúkrunarfræðideild - á vefsíðu Háskóla Íslands

Anna Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi hjúkrunarforstjóri Landspítala, tók við heiðursdoktorsnafnbót við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands þriðjudaginn 24. ágúst síðastliðinn. Nafnbótina hlýtur hún m.a. fyrir að aðkomu sína að samtengdum störfum kennara við Hjúkrunarfræðideild og Landspítala og fyrir að stuðla að því að að koma á fót starfsþjálfun til sérfræðingsviðurkenningar í hjúkrunar- og ljómóðurfræði og ráðningar í nýjar stöður sérfræðinga á þessum sviðum á Landspítala.

Upptaka frá athöfninni

Anna Stefánsdóttir hefur um áratugaskeið verið öflugur stuðningsmaður Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands, einkum á sviðum kennslu og rannsókna. Anna var í stjórnunarstöðum á Landspítala mestallan starfsferil sinn, en þar gegndi hún stöðu hjúkrunardeildarstjóra gjörgæsludeildar, framkvæmdastjóra hjúkrunar á handlækningasviði spítalans, hjúkrunarforstjóra og tímabundið stöðu forstjóra Landspítala. Í gegnum þessi störf varð Önnu ljóst að grundvöllur fyrir þróun hjúkrunar- og ljósmóðurfræða væri náin samvinna akademíu og klínísks vettvangs. Aðgengi kennara að klínískum vettvangi og samstarf þeirra við hjúkrunarfræðinga og ljósmæður gerði góðar klínískar rannsóknir mögulegar samhliða hagnýtingu þekkingarinnar og eflingu kennslu á öllum stigum náms.

Það eru fyrst og fremst tveir þættir í störfum Önnu sem eru það mikilvægir að hún er talin þess verðug að hljóta heiðursdoktorsnafnbót Háskóla Íslands. Annars vegar er það aðkoma hennar að tilurð samtengdra starfa kennara við Hjúkrunarfræðideild og Landspítala og hins vegar hlutur hennar í að koma á fót starfsþjálfun til sérfræðingsviðurkenningar í hjúkrunar- og ljómóðurfræði og ráðning hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra með sérfræðingsleyfi í nýjar stöður sérfræðinga á Landspítala. Með þessum aðgerðum skipaði Landspítali sér sess meðal fremstu sambærilegra stofnana á Norðurlöndum hvað það varðar.

Anna Stefánsdóttir er fædd 8. ágúst 1947 á Grund í Svarfaðardal.  Foreldar hennar voru Dagbjört Ásgrímsdóttir, kennari og húsmóðir og Stefán Björnsson bóndi. Hún útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1968. Árið 1975 lauk hún framhaldsnámi í gjörgæsluhjúkrun frá háskólasjúkrahúsinu í Edinborg árið 1975 og meistaranámi í hjúkrunarstjórnun frá Edinborgarháskóla árið 1988.  

Anna var ætíð virk í félagsmálum samhliða störfum sínum á Landspítala. Hún sat í stjórn Hjúkrunarfélags Íslands á áttunda ártug síðustu aldar og var einn af stofnendum og fyrsti formaður deildar gjörgæsluhjúkrunarfræðinga innan þess félags. Hún sat um tíma í stjórn deildar hjúkrunarstjórnenda innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og var stjórnarkona í Samtökum Evrópskra hjúkrunarstjórnenda 2003-2011. Anna var kjörin í stjórn Rauða krossins á Íslandi árið 2005 og var formaður stjórnar 2008-2014.  Hún er einn af stofnendum Landsamtakanna Spítalinn okkar og hefur verið formaður stjórnar þeirra frá stofnun árið 2014.  Hún er formaður stjórnar Reykjalundar endurhæfing ehf. 

Anna er heiðursfélagi í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hún hlaut Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu heilbrigðis- og mannúðarmála 2016. Þá hlaut Anna þakkarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu árið 2020 fyrir eftirtektarvert ævistarf stjórnenda í atvinnulífinu.  

Eiginmaður Önnu var Jón Pétursson, eðlisfræðingur, hann lést árið 2011.  Þau hjónin eignuðumst þrjú börn og barnabörnin eru tíu. 

Fleiri myndir frá athöfninni í Hátíðasal
 

Anna Stefánsdóttir