Skip to main content
3. maí 2018

Ólöf Guðný efnilegust í öldrunarrannsóknum

Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og verkefnastjóri á Rannsóknarstofu Háskólans og Landspítala í öldrunarfræðum, hefur verið útnefnd efnilegasti vísindamaðurinn í öldrunarrannsóknum á Norðurlöndum af samtökum norræna vísindamanna í öldrunarfræðum.

Ólöf flytur í kjölfarið heiðursfyrirlestur á 24. norrænu ráðstefnunni í öldrunarfræðum sem fram fer í Osló 2. – 4. maí 2018.

Ólöf lauk doktorsprófi í næringarfræði við Háskóla Íslands árið 2011 og fjallaði doktorsverkefnið um hreyfingu og næringu eldra fólks í sjálfstæðri búsetu. Ólöf er ötull rannsakandi á sviði öldrunarfræða og eftir hana liggja fjölda vísindagreina um efnið. Hún stýrir meðal annars veigamikilli rannsókn um áhrifaþætti fyrir farsæla öldrun. Ólöf tekur einnig þátt í umfangsmiklu alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi á sviði öldrunarrannsókna og þar á meðal er verkefnið SPRINTT um þátt næringar og þjálfunar í farsælli öldrun sem fjármagnað er af Evrópusambandinu.

Ólöf hóf störf við Háskóla Íslands sem stundakennari árið 2005. Hún hlaut stöðu lektors í næringarfræði árið 2012 og framgang í stöðu dósents árið 2016. Ólöf starfar einnig sem verkefnastjóri við Rannsóknarstofu Háskólans og Landspítala í öldrunarfræðum. Ólöf hefur látið málefni kennslu sig varða og hún situr meðal annars í kennslumálanefnd Heilbrigðisvísindasviðs. Hún hefur stýrt vinnu við skipulagningu og þróun þverfræðilegra námskeiða við sviðið. Ólöf er einnig fulltrúi Íslands í norrænu samstarfi um þróun framhaldsnáms í hnattrænni heilsu undir yfirskriftinni Nordic Global Health Network og er fjármagnað af NordPlus.

Tæplega 800 sérfræðingar af ýmsum fræðasviðum sem tengjast öldrun taka þátt í 24. norrænu ráðstefnunni í öldrunarfræðum í Osló. Á dagskrá ráðstefnunnar eru meðal annars 58 málstofur og 300 veggspjöld, ásamt 8 gestafyrirlestrum. 25. norræna ráðstefnan í öldrunarfræðum mun fara fram á Íslandi árið 2020.

Háskóli Íslands óskar Ólöfu Guðnýju innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Ólöf Guðný Geirsdóttir