Öll tölublöð Ritraðar Guðfræðistofnunar í opnum aðgangi | Háskóli Íslands Skip to main content
9. janúar 2019

Öll tölublöð Ritraðar Guðfræðistofnunar í opnum aðgangi

Öll tölublöð Ritraðar Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands eru nú aðgengileg lesendum í opnu og stafrænu formi. Ritröðin hefur verið gefin út í opinni vefútgáfu frá 2014 og nú hafa öll eldri prentuð tölublöð ritraðarinnar verið gerð lesendum aðgengileg á stafrænu safni Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, timarit.is. Fyrir vikið er ritið ekki lengur aðeins aðgengilegt tiltölulega fámennum áskrifendahópi heldur öllum sem vilja og geta nálgast það í rafrænu formi.

Annað tölublað ársins 2018 var nýverið gefið út og það má nálgast á vefsvæði ritraðarinnar. Efni þessa heftis er fjölbreytt og höfundar bæði úr hópi kennara í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild og fræðimanna sem fjalla um viðfangsefni sem tengjast guðfræðinni á einn eða annan hátt frá sjónarhorni sinna fræðigreina. Fimm fræðilegar greinar eru í heftinu að þessu sinni, auk ritdóms um merkilega bók sem gefin var út um þýðingu á Esterarbók, einni af ritum Gamla testamentisins, á íslenska tungu. Arngrímur Vídalín, sem árið 2017 varði doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum fyrri alda, er höfundar greinarinnar „Móðurleg ímyndun: Frá Jakobi og Laban, um forvitnilega sögu um Hippókrates í Stjórn I, að lækningabókum endurreisnartímans“. Í greininni rekur Arngrímur sögu hugmyndarinnar um „móðurlega ímyndun“ (e. maternal imagination), sem m.a. er að finna í íslenska biblíuritinu Stjórn I frá síðmiðöldum, og greinir hana út frá áhrifum á íslenska menningu.

Trúarhugmyndir íslenska nóbelskálsins eru viðfangsefni greinar Björns Þórs Vilhjálmssonar, lektors við Íslensku- og menningardeild og greinarformanns í kvikmyndafræði, sem ber heitið „„… við verðum líka að spara prestana!“ Um trúarhugmyndir Halldórs Laxness og tæknihyggju á þriðja áratugnum“. Í greininni fjallar Björn Þór um afstöðu skáldsins til þjóðkirkjunnar og lúthersks siðar, sem hinn nýskírði meðlimur rómversk-kaþólskrar kirkju hafði ekki mikið álit á, sem og afstöðu Halldórs til nýtilkominna ljósvakamiðla og mögulegs áhrifamáttar þeirra.

Í greininni „Köllun Móse þá og nú: Frásögnin í 2. Mósebók og málverk Einars Hákonarsonar“ fjallar Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í gamlatestamentisfræðum, um einn áhrifamesta texta 2. Mósebókar, um köllun Móse og opinberun Jahve, og túlkun Einars Hákonarsonar listmálara á þessum texta í málverkinu Opinberun við Helgafell. Gunnlaugur vinnur rannsókn sína innan fræðasviðs áhrifasögu Gamla testamentisins og er niðurstaða hans sú að listamaðurinn sé trúr hinni fornu frásögn en notfæri sér einnig frelsi listamannsins til að túlka hana út frá íslenskum aðstæðum, m.a. til að kynna Sigurbjörn Einarsson biskup sem hinn íslenska Móse.

Hjalti Hugason skrifar grein um aðskilnað ríkis og kirkju og upphaf almennrar umræðu um þetta stóra deilumál í kjölfar nýrrar stjórnarskrár með ákvæði um þjóðkirkju og almennt trúfrelsi á árunum 1878 til 1915. Í greininni færir Hjalti rök fyrir því að tvær ólíkar stefnur hafi komið fram á árunum í kringum 1880, annars vegar aðskilnaðarleiðin og hins vegar löggjafarleiðin, og hafi sú síðarnefnda náð að festast í sessi á fyrsta áratug 20. aldar og verið fylgt í íslenskum trúmálarétti fram til dagsins í dag. Þetta er fyrri greinin af tveimur en í hinni síðari verður fjallað um ýmsa afmarkaða þætti í aðskilnaðarumræðunni og þau kaflaskipti sem urðu með stjórnarskrárbreytingum sem gerðar voru vegna gagnrýni aðskilnaðarsinna.

Höfundur síðustu greinarinnar er Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði, sem fjallar um loftslagsmál, en greinin ber yfirskriftina „Hvernig á ég að breyta og hvers má ég vona? Um von og vonleysi í guðfræðilegri og siðfræðilegri orðræðu um loftslagsbreytingar“. Í greininni er fjallað um stöðuna í loftslagsmálum og spár vísindamanna, sem síðustu áratugi hafa keppst við að spá fyrir um afleiðingar loftslagsbreytinga og hefur oftar en ekki verið mætt með sinnuleysi, bæði af stjórnmálamönnum og almenningi. Sólveig Anna leggur áherslu á að samkvæmt nýjustu skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna frá því í október 2018 sé tíminn til að hefjast handa við að vinna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum senn úti og því ekkert annað í stöðunni en að grípa til hnitmiðaðra, róttækra og tafarlausra aðgerða strax. Í síðari hluta greinarinnar bendir hún á framlag nokkurra vistguðfræðinga samtímans sem fjallað hafa um afleiðingar loftslagsbreytinga og spyr hvort boðskapur þeirra geti falið í sér von og þá hvaða merking sé lögð í vonarhugtakið í því samhengi.

Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor hefur tekið við ritstjórn Ritraðarinnar af Rúnari Má Þorsteinssyni prófessor sem gegn hefur ritstjórastöðunni síðustu fjögur ár.

Arnfríður Guðmundsdóttir hefur tekið við ritstjórn Ritraðar Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands af Rúnari Má Þorsteinssyni.