Skip to main content
20. október 2021

Ókyngreind salerni í 70% bygginga HÍ

Ókyngreind salerni í 70% bygginga HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ókyngreind salerni er að finna í 70% bygginga Háskóla Íslands og unnið er að því að koma slíkum salernum upp í öllum byggingum skólans í takt við jafnréttisstefnu hans.

Hvað eru ókyngreind salerni?

Ókyngreind salerni eru salerni sem ekki eru merkt sérstöku kyni. Öllu fólki, óháð kyni, er þannig heimilt að nota ókyngreind salerni. Slík salerni eru mikilvæg fyrir t.d. trans fólk og kynsegin fólk en einnig eru fleiri hópar fólks sem kjósa frekar að nota ókyngreind salerni af ýmsum ástæðum.

Mikilvægi ókyngreindra salerna í Háskóla Íslands

Í nýlegri samantekt frá jafnréttisfulltrúa HÍ kemur fram að mikilvægt sé að tryggja aðgengi að ókyngreindum salernum í Háskóla Íslands. Ýmsir hópar, m.a. trans fólk (þ.m.t. kynsegin fólk) og intersex fólk, hafa mikla hagsmuni af því að aðgengi að slíkum salernum sé gott. Skortur á ókyngreindum salernum geti skapað óþarfa vanda, ýtt undir jaðarsetningu og jafnvel sett hinsegin fólk í hættu á að verða fyrir áreitni og ofbeldi. Því sé mikilvægt að þau séu aðgengileg sem víðast á háskólasvæðinu.

Í jafnréttisáætlun HÍ er lögð áhersla á gott aðgengi að ókyngreindum salernum og er stefnt að því að þau verði í sem flestum byggingum Háskóla Íslands. „Í okkar samantekt kemur fram að ókyngreind salerni séu í 17 af 24 þeim byggingum sem HÍ rekur auk Stúdentakjallarans. Það er ákaflega mikilvægt að tryggja aðgengi að slíkum salernum í sem flestum byggingum háskólans. Þetta er eitt af þeim skrefum sem mikilvægt er að háskólinn og samfélagið allt taki til að tryggja réttindi og öryggi hinsegin fólks í háskólasamfélaginu. Þetta er einnig hluti af stærri umræðu um hvernig hugmyndir um kyn eru að breytast, ekki síst meðal yngra fólks. Fólk er æ betur að átta sig á að það er ekki hægt að hugsa allt samfélagið út frá þeirri tvískiptingu að það séu bara til konur og karlar,“ segir Arnar Gíslason, annar af jafnréttisfulltrúum HÍ. Hann bætir við að fundað hafi verið með Q – félagi hinsegin stúdenta um úttektina og þar hafi komið fram góðar ábendingar.

Hver er staðan núna?

Eins og stendur er að finna ókyngreind salerni í eftirfarandi byggingum: Aðalbyggingu, Öskju, Eirbergi, Endurmenntun, Haga, Háskólatorgi (einnig Stúdentakjallara), Íþróttahúsi (þar sem einnig er ókyngreind sturtuaðstaða), Neshaga, Nýja Garði, Odda, Raunvísindastofnun, Setbergi, Skipholti, Stakkahlíð, Stapa, Veröld og VR III.

Engin ókyngreind salerni eru í Árnagarði, Læknagarði, Tæknigarði, VR I og VR II. Það sama á við um Gimli og Lögberg, en þær byggingar eru samtengdar við Odda þar sem eru ókyngreind salerni á jarðhæð.

Framtíðarsýn háskólans

Í takt við jafnréttisáætlun HÍ hefur náðst árangur í að fjölga ókyngreindum salernum í byggingum skólans á undanförnum misserum. Enn fremur hefur áhersla verið lögð á að ókyngreind salerni séu í öllum nýbyggingum skólans. Í Veröld – húsi Vigdísar, sem opnuð var 2017, er til að mynda 8 slík salerni að finna. Enn fremur er horft til þess að fjölga slíkum salernum þegar gengið er til framkvæmda í byggingum skólans og er Oddi gott dæmi um vel heppnaða útfærslu í þessum efnum. Jafnframt er unnið að því að ókyngreind salerni verði merkt inn á yfirlitskort bygginga skólans.

„Við munum áfram vinna að þessu málefni og nú er verið að fara yfir hvaða lausnir eru í stöðunni í nokkrum bygginganna sem eftir eru. Í sumum tilvikum gæti lausnin verið einföld en í öðrum tilvikum þarf talsverðar framkvæmdir til að fá góða lausn og nú er unnið að því að kostnaðargreina og forgangsraða. Við erum jafnframt meðvituð um að það eru ákveðnar reglugerðir sem setja okkur skorður í þessum efnum en um leið viljum við leggja áherslu á að finna góðar lausnir sem stuðla að því að skapa enn hinseginvænna háskólasamfélag,“ segir Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands.
 

""