Skip to main content
29. júní 2020

Ógnarspennandi hlaðvörp um fornar bókmenntir

Flimtan og fáryrði, hlaðvarp um íslenskar bókmenntir fyrri alda hefur göngu sína í dag, 29. júní, í umsjón Gunnlaugs Bjarnasonar íslenskufræðings og Ármanns Jakobssonar, prófessors í íslenskum bókmenntum. Í hlaðvarpinu er gerð sú tilraun að miðla íslenskum miðaldabókmenntum og nýlegum rannsóknum á þeim til áheyrenda í léttum dúr þannig að þeim finnist þeir ekki staddir í skólastofu heldur í léttu spjalli í kaffiboði. Gunnlaugur og Ármann eru stundum tveir einir að ræða valin efni úr sögunum en stundum fá þeir til sín góða gesti sem hafa innsýn í íslenskar miðaldabókmenntir. Verkefnið er styrkt af samfélagsvirknisjóði Háskóla Íslands.

Ármann Jakobsson kemur víða við sögu þessi dægrin. Á dögunum kom út krimminn hans Tíbrá sem er sögð bæði fyndin og frumleg saga um forherta þrjóta og breyskar manneskjur og auðvitað þær sem örlögin hafa leikið grátt. Tíbrá er þriðja glæpasaga Ármanns Jakobssonar og á meðan lesendur sökkva sér ofan í flækjurnar í henni geta aðrir notið þess að hlusta á hann lesa höfuðritið Njálu í útvarpi

Ármann lætur ekki þetta tvennt duga því hann hefur tekið upp hlaðvarpsþætti um íslenskar fornbókmenntir sem verða m.a. aðgengilegir gegnum Hugrás, vefrit Hugvísindasviðs Háskólans og á Spotify og Buzzsprout. „Hugmyndin er gömul og tengist óþrjótandi áhuga mínum á að miðla fornbókmenntum og fræðunum um þær til almennings. Þess vegna hef ég farið á ýmis skólastig og um allt land til að ræða þær og þess vegna er ég að lesa Njáls sögu í útvarpið í sumar,“ segir Ármann sem hefur lengi verið spenntur fyrir hlaðvarpsforminu en þau vinnur hann með Gunnlaugi Bjarnasyni íslenskufræðingi.

Vill ná eyrum og almennings og kveikja áhuga á fornum bókmenntum

Með hlaðvarpsþáttunum er Ármann svo sannarlega að leita nýrra leiða til að ná eyrum almennings. Markmiðið er auðvitað að miðla sögunum sjálfum og þekkingu til samfélagsins en opinberum háskólum er ætlað einmitt það að færa þekkinguna til allra og hafa áhrif á samfélagið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.  

„Það þurfti eiginlega aðeins smáatriði til að ýta við mér og þau voru tvö: annars vegar var ég kominn í samvinnu við Gunnlaug út af öðru og fannst hann kjörinn samverkamaður en hins vegar voru auglýstir samfélagsvirknistyrkir hjá Háskóla Íslands og fannst mér þetta kjörið verkefni fyrir þá úthlutun.“

Prófessorinn segir að hlaðvarpið nefnist „Flimtan og fáryrði: Hlaðvarp um íslenskar bókmenntir fyrri alda“ og þar fari hann og Gunnlaugur yfir alls konar persónur, atvik og þemu úr fornsögunum og segi frá ýmsum greinaskrifum og fræðikenningum um þær. „Þetta er samt í léttum dúr þannig að áheyrendum finnst eins og þeir séu staddir í vinsamlegu kaffiboði fremur en í skólastofu,“ segir Ármann.  Hann bætir því við að heiti hlaðvarpsins sé sótt til Þórhildar skáldkonu sem var rekin úr brúðkaupi fyrir flimtan og fáryrði og þeir félagar reyni að taka hana sér til fyrirmyndar. 

Í þáttaröðinni er von á fjölda gesta, m.a. mæta ýmsir helstu fræðimenn á sviðinu og er þeim ætlað að dýpka umræðuna. Þættirnir þrettán verða frumfluttir núna í sumar, frá og með 29. júní, en þeir Ármann og Gunnlaugur stefna markvisst að fleirum síðar. 

Snúa vörn í sókn

Það má segja að allt líf Ármanns snúist um bækur. Hann skrifar þær, les þær, rýnir þær og rannsakar. Hann segir samt að bækur eigi örlítið undir högg að sækja í samfélagi hraða og spennu þar sem ýmsir nýir og ágengir miðlar hafi rutt sér til rúms. „Þeim mun mikilvægara er að taka tæknina í þjónustu sína og að ný form eins og hlaðvarpið fjalli ekki aðeins um dægurmál heldur líka bækur og miðaldamenningu. Það eru til ýmis erlend hlaðvörp um fornar bókmenntir og menningu og öll hafa þau þannig áhrif að áhuginn á bókmenntunum eykst hjá þeim sem hlusta. Þess vegna er tilraunin vel þess virði.“

„Íslendingasögurnar eru svo skemmtilegar að þær ættu allir að lesa,“ segir Ármann og hlær en auðvitað er honum alvara. Hann verður aðeins hugsi og segir svo: „En vitaskuld þarf að búa til aðlaganir að þeim til að koma þeim á framfæri við lesendur sem eru ekki vanir fornum textum. Eins er mikilvægt að fjalla um þær þannig að fólk fái áhuga á að lesa þær. Það er von okkar að í hlaðvarpinu okkar sé slík umfjöllun.“

Íslendingasögurnar mikilvægar

Ármann víkur talinu að Íslendingasögunum sem eru perlur sem við í raun varðveitum og rannsökum fyrir allt mannkynið. En við viljum auðvitað að þessi mögnuðu bókmenntaverk séu ekki bara viðfangsefni fræðimanna heldur séu lesin upp til agna af öllum þorra fólks. 

„Íslendingasögurnar eru svo skemmtilegar að þær ættu allir að lesa,“ segir Ármann og hlær en auðvitað er honum alvara. Hann verður aðeins hugsi og segir svo: „En vitaskuld þarf að búa til aðlaganir að þeim til að koma þeim á framfæri við lesendur sem eru ekki vanir fornum textum. Eins er mikilvægt að fjalla um þær þannig að fólk fái áhuga á að lesa þær. Það er von okkar að í hlaðvarpinu okkar sé slík umfjöllun.“

Hlaðvarpsþættirnir Flimtan og fáryrði verða aðgengilegir á Spotify og Buzzsprout og fyrstu fjórir eru þegar komnir þar inn.

1. þáttur: Um misheppnað galdranám Gunnlaugs.
Lýsing: Frumþátturinn þar sem Ármann og Gunnlaugur kynna leiðarljós hlaðvarpsins og íslensku 10. aldar útgáfuna af Hogwarts.
Fluttur 29. júní.
 
2. þáttur: Ónytjungurinn Þorkell Súrsson.
Lýsing: Gísli Súrsson var bestur í öllu nema kannski á nóttunni. En myndu Ármann og Gunnlaugur ráða bróður hans í vinnu?
Fluttur 29. júní.
 
3. þáttur: Hvað ráða þriggja ára við?
Lýsing: Ekki trúa öllu sem fólk segir um aðra er boðskapur þessa þáttar þegar Gunnlaugur og Ármann ræða meintan drykkjuskap þriggja ára drengs. 
Fluttur 29. júní.
 
4. þáttur: Skaðlegar skikkjur, gestur: Ásdís Egilsdóttir.
Lýsing: Ýmsum verður ekki kápan úr því klæðinu í þessum þætti. Ármann og Gunnlaugur fá til sín góðan gest og haldið er til hirðar Artúrs konungs. 
Fluttur 29. júní.
 
5. þáttur: Um ósýnilega greind kvenna.
Lýsing: Hún var jafnoki greindustu karlmanna Íslands en fjölmargir lesendur sjá það ekki og Gunnlaugur og Ármann ræða þessa útþurrkun gáfukonu.
Fluttur 6. júlí.
 
6. þáttur: Kamarorg.
Lýsing: Í sögu dagsins er ekkert kammerorkester eða kamarorghestar en hins vegar mikið kamarorg. Gunnlaugur og Ármann ræða púka og saur í þætti sem aldrei þessu vant er mjög við hæfi barna innan tólf ára. 
Fluttur 13. júlí.
 
7. þáttur: Viðræður um varúlfa, gestur: Aðalheiður Guðmundsdóttir.
Lýsing: Hrikaleg óheppni Ála flekks er til umfjöllunar í þessum þætti þar sem meðal annars er rætt hvernig mannssálin endurspeglast í ævintýrinu.
Fluttur 20. júlí.
 
8. þáttur: Færeyskir draumar.
Lýsing: Færeyskan dreng dreymir stóra drauma en þessir færeysku draumaráðendur hugsa ekki nógu hátt. Ármann og Gunnlaugur skyggnast um í sögu Sverris konungs. 
Fluttur 27. júlí. 
 
9. þáttur: Ekki bara Chelsea.
Lýsing: Ármann og Gunnlaugur ræða hinn mikla herkonung Harald harðráða sem raunar féll ekki á Chelseavellinum heldur Stamford Bridge í Yorkshire en þó féll hann og það árið 1066. Vanstilling og sovéskur einræðisherra koma einnig við sögu.
Fluttur 3. ágúst. 

""