Öflugur stuðningur við doktorsnema | Háskóli Íslands Skip to main content
19. maí 2020

Öflugur stuðningur við doktorsnema

Þrjátíu og þrjú doktorsverkefni hljóta styrki úr Doktorsstyrkjasjóði Háskóla Íslands, sem er yfirheiti yfir Rannsóknasjóð skólans, Háskólasjóð Eimskipafélags Íslands og aða sjóði sem koma að veitingu doktorsstyrkja hverju sinni. Umsóknir um styrki hafa aldrei verið fleiri, eða 163 talsins. Rannsóknasjóður Háskóla Íslands veitti að þessu sinni nítján styrki og Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands fjórtán.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda við Háskóla Íslands, segir afar ánægjulegt að geta haldið svipuðum fjölda styrkja og í fyrra. Það sé til marks um kraft og metnað í rannsóknum skólans að umsóknir í ár hafi verið margar og gríðarlega sterkar og því hafi stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands átt úr vöndu að ráða. Augljóst sé að þrátt fyrir að viðbótarfjármagni hafi verið veitt í Rannsóknasjóð, annað árið í röð, hafi þurft að hafna mörgum góðum umsóknum.

„Í stefnu Háskólans kemur skýrt fram að umgjörð doktorsnáms skuli styrkt. Það var því afar gleðilegt að geta mætt metnaðarfullri stefnu með fjölgun styrkja árið 2018. Í fyrra var styrkupphæðin auk þess hækkuð verulega og við héldum okkur við sömu fjárhæð í ár. Frá og með síðasta ári hefur styrkjunum að auki fylgt ráðstöfunarfé að upphæð 300 þúsund krónur miðað við þriggja ára styrk,“ segir Guðbjörg Linda og bendir á að rannsóknir doktorsnema séu ein af undirstöðum rannsóknavirkni við skólann. 

Jón Atli Benediktsson rektor tekur í sama streng og segir að uppbygging rannsókna og doktorsnáms undanfarna tvo áratugi hafi haldist í hendur við framrás Háskólans á alþjóðlegum og viðurkenndum matslistum. „Doktorsnemar leggja mikið af mörkum til þekkingarleitar í samstarfi við leiðbeinendur sína og taka virkan þátt í að efla Háskólann sem alþjóðlega rannsóknastofnun. Þeir hafa átt drjúgan þátt í að koma Háskóla Íslands í fremstu röð alþjóðlega.“

Styrkþegar í ár koma frá öllum fræðasviðum skólans og allmörgum deildum og spanna rannsóknir þeirra því mjög fjölbreytt svið fræðanna. 

Háskóli Íslands óskar nýjum styrkþegum og leiðbeinendum til hamingju með styrkina og velfarnaðar í þeirri miklu og mikilvægu vinnu sem er fram undan. Upplýsingar um styrkhafa er að finna á vef skólans
 

""