Skip to main content
7. apríl 2021

Öfgahyggja ein helsta ógn alþjóðasamfélagsins

Öfgahyggja ein helsta ógn alþjóðasamfélagsins - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Öfgahyggja er áhyggjuefni um allan heim og að sumra mati ein helsta ógnin við öryggi, stöðugleika, velmegun þjóða og alþjóðasamfélagsins. Er það sérstaklega vegna tengsla öfgahyggju við ofbeldi og hryðjuverk. Öfgahyggja er ekki nýtt fyrirbæri heldur getur hún tekið breytingum og tekið á sig mismunandi birtingarmyndir eftir svæðum, aðstæðum, samhengi og tíma og getur sprottið út frá mismunandi hugmyndum eða málstað,“ segir Sema Erla Serdaroglu, stjórnmálafræðingur og meistaranemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Sema er ein þeirra sem flytur erindi á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir sem haldin verður þann 8. apríl á netinu. Erindi Semu ber heitið Öfgahyggja og ungt fólk og byggist það að hluta á meistaraverkefni hennar.  

Sema segir öfgahyggju ekki bundna við ákveðna einstaklinga eða hópa fólks, ákveðnar hugmyndir eða skoðanir, trú, menningu eða landsvæði. „Flestar birtingarmyndir öfgahyggju er þó hægt að skilgreina út frá pólitísku, trúarlegu, efnahagslegu, samfélagslegu eða sögulegu samhengi. Dæmi um birtingarmyndir öfgahyggju í dag eru öfgahægrisinnaðir hópar eins og nýnasistar og hópar sem nota trú til þess að réttlæta ofbeldi og hryðjuverk, til dæmis íslamska ríkið (e. ISIS).“ 

Hópurinn sem aðhyllist öfgahyggju að yngjast 

Eitt af því sem hefur vakið athygli fræðafólks er að þeir einstaklingar sem aðhyllast öfgahyggju í Evrópu hafa verið að yngjast á síðustu árum. „Til eru dæmi um að einstaklingar, sem eru 13 ára gamlir og fæddir í Evrópu, hafi farið til Íraks eða Sýrlands til þess að berjast með hryðjuverkasamtökum. Á sama tíma sýna rannsóknir fram á að ungt fólk í Evrópu aðhyllist í auknum mæli öfgahægrisinnaðar skoðanir og hugmyndir. Þetta er þróun sem mikilvægt er að bregðast við þar sem öfgahyggja, og þá sérstaklega ofbeldisfull öfgahyggja, hefur gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, hópa fólks og samfélagið í heild sinni.“ 

Að sögn Semu hefur þetta viðfangsefni ekki fengið mikla athygli í íslensku samfélagi. Það þýðir þó ekki að vandinn sé ekki til staðar. „Ég hef sótt mér þekkingu á öfgahyggju ungs fólks víða um Evrópu, með þátttöku í námskeiðum og ráðstefnum með áherslu á þátttöku ungs fólks í samtökum nýnasista eða íslamska ríkinu. Ég hef dvalið í útskúfuðum samfélögum sem eru stimpluð sem hreiður íslamska ríkisins og sótt námskeið á vettvangi hryðjuverka öfgahægrisinnaðra einstaklinga og hópa. Tilgangurinn með því að sækja mér þessa þekkingu er að kynna mér þær aðferðir sem hafa sýnt árangur í forvörnum gegn því að ungt fólk tileinki sér öfgahyggju.“ 

Sema starfaði lengi á vettvangi stjórnmála en beinir kröftum sínum í dag að fræðslu og forvarnarstarfi. „Ég hef upplifað mikla öfga, fordóma, hatursorðræðu og ofbeldi vegna uppruna míns um árabil. Eftir þessa reynslu sannfærðist ég um að besta leiðin til þess að reyna að koma í veg fyrir að næstu kynslóðir þurfi að upplifa slíkt hið sama væri að reyna að koma í veg fyrir að ungt fólk tileinki sér öfga- og ofbeldishegðun. Ég tók því ákvörðun um að taka neikvæða reynslu og gera eitthvað jákvætt við hana,“ segir Sema sem er einnig með meistaragráðu í Evrópufræðum og Evrópurétti frá Edinborgarháskóla og starfaði á Evrópuþinginu í Brussel um hríð. Til viðbótar hóf hún diplómanám í samskiptum og forvörnum árið 2018 við Háskóla Íslands til þess að styrkja sig sem fagaðila í starfi.  

„Öfgahyggja er áhyggjuefni um allan heim og að sumra mati ein helsta ógnin við öryggi, stöðugleika, velmegun þjóða og alþjóðasamfélagsins. Er það sérstaklega vegna tengsla öfgahyggju við ofbeldi og hryðjuverk,“ segir Sema Erla Serdaroglu, stjórnmálafræðingur og meistaranemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.

Forréttindi að geta aðstoðað fólk í neyð 

Samhliða háskólanámi þá starfar Sema sem framkvæmdarstýra Æskulýðsvettvangsins og Solaris - hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. „Æskulýðsvettvangurinn vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi og leggur áherslu á að skapa heilbrigðar, uppbyggjandi, vandaðar og öruggar aðstæður í slíku starfi meðal annars með fræðslu og forvörnum,“ lýsir Sema en samtökin hafa meðal annars staðið fyrir ráðstefnum um neteinelti og hatursorðræðu. 

Solaris-samtökin voru stofnuð í janúar 2017 í þeim tilgangi að bregðast við þeirri neyð sem hælisleitendur og flóttafólk býr við hér á landi. „Okkar starfsemi felur nánast alfarið í sér að bregðast við þegar stjórnvöld og stofnanir á vegum stjórnvalda bregðast fólki í neyð. Á meðal þess sem við gerum er að veita flóttafólki neyðaraðstoð sem felst í að útvega fólki fatnað, matvörur, lyf, gleraugu eða aðrar nauðsynjar. Við aðstoðum einnig fólk á flótta við að greiða fyrir lögfræði- og heilbrigðisþjónustu. Við vekjum einnig athygli á málum þegar við verðum vitni að ómannúðlegri og óréttlátri málsmeðferð fyrir fólk í viðkvæmri stöðu,“ segir Sera og tekur fram að það taki vissulega á að vera í forsvari fyrir slíka starfsemi, sem einkennist oft af átökum við yfirvöld og baráttu sem vinnst ekki alltaf.  

„Það getur reynst erfitt að hitta fólk sem er á viðkvæmum stað en á sama tíma eru það forréttindi að geta aðstoðað fólk í neyð og í stóra samhenginu skiptir það höfuðmáli,“ segir Sema að endingu. 

Áhugasamir geta kynnt sér dagskrá ráðstefnunnar HÉR. 

„Ég hef upplifað mikla öfga, fordóma, hatursorðræðu og ofbeldi vegna uppruna míns um árabil. Eftir þessa reynslu sannfærðist ég um að besta leiðin til þess að reyna að koma í veg fyrir að næstu kynslóðir þurfi að upplifa slíkt hið sama væri að reyna að koma í veg fyrir að ungt fólk tileinki sér öfga- og ofbeldishegðun,“ segir Sema Erla Serdaroglu. MYND/Eva Sig.