Skip to main content
4. nóvember 2019

Óðinshani flýgur á hafsvæði við Galapagoseyjar og heim aftur

""

Óðinshani er einn af fallegustu fuglunum sem koma hingað á vorin en hann er oft seint á ferð enda þarf hann að fljúga yfir þvílík höf og víðerni að fáir fuglar ná nokkru svipuðu í fari milli heimsálfa. Þetta er þó bara nýlega uppgötvað og í hópi þeirra sem drógu upp rétta farið hjá þessum fugli eru vísindamenn við Háskóla Íslands. 

„Óðinshani sem kemur úr eggi á Íslandi flýgur ævintýralegar vegalengdir,“ segir José Alves, sem er gestavísindamaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. „Hann flýgur héðan til Grænlands og svo eftir Atlantshafsströnd Norður-Ameríku alla leið til Flórída. Hann nemur hins vegar ekki staðar þar heldur flýgur áfram yfir Karíbahaf og yfir í Kyrrahaf. Þar hefur hann vetursetu á opnu hafi milli Níkarakva, Ekvador og Galapagoseyja. Hann ferðast því 15 til 18 þúsund kílómetra á hverju ári.“ 

José Alves er frá Portúgal en hann lauk doktorsgráðu frá University of East Anglia með áherslu á rannsóknir á jaðrakan. Hann kemur hingað á hverju sumri til að stunda rannsóknir á farfuglum með vísindamönnum við Háskólann. 

Það er magnað að fugl sem er einungis 40 grömm að þyngd afreki svona nokkuð. „Hvernig vitum við þetta?“ svarar José snöggt spurningu um þessa nýlegu þekkingu. „Við fylgjumst með ferðalagi óðinshanans með því að festa sérhæft staðsetningartæki við bakið á fuglinum. Tækið mælir ljósmagn í umhverfi fuglsins, sem er að mestu sólarljós, hvern einasta dag ársins. Þar sem við þekkjum tíma sólarupprásar og sólarlags og hádegis á mismunandi breiddar- og lengdargráðum getum við ákvarðað staðsetningu fuglsins með talsvert mikilli nákvæmni fyrir nánast hvern einasta dag.“ 

Það flókna við þetta er að nauðsynlegt er að ná fuglinum aftur til að endurheimta tækið sem vegur aðeins eitt gramm. Vísindamenn hafa stundum heppnina með sér og heppnin fylgir oft þolinmæði og þrautseigju. Í sumar klófestu José og félagar fugl með tæki sem staðfesti þetta flug, bæði far og vetursetu. 

Óðinhani er smágerður fugl og í sumarklæðum er hann mógráleitur með hvíta flekki á kviði og apelsínugula rönd á baki. Hann er með rauðleitan kraga um hálsinn sem teygir sig upp á kollinn og líka hvítan blett neðan við gogginn sem lekur niður á hálsinn og annan fyrir ofan augun til að skeyta sig enn frekar.

Heldur til á opnu hafi

Rannsóknir á óðinshana hafa verið stundaðar við Rannsóknasetur Háskólans á Suðurlandi þar sem José hefur m.a. unnið með fuglafræðingunum Böðvari Þórissyni og Verónicu Mendez. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við fleiri fuglafræðinga á Íslandi og frá Grænlandi, Skotlandi, Norðurlöndunum og Rússlandi.

José segir að leynivopn óðinshanans sé að hann þurfi ekki sífellt að fljúga, hann geti í raun sest á sjó og hvílst og bætt á tankinn því vitað er að hann étur svif við yfirborðið. 

„Ég rannsaka aðallega vaðfugla og þessi er frábrugðinn á þann veg að hann ver vetrinum á opnu hafi. Þá er hann frekar sjófugl en vaðfugl því þeir síðarnefndu verja oftast vetrum á strandsvæðum. Þessi nýja þekking gefur okkur færi á að skilja betur tengsl vistkerfa á norðurslóðum við mismunandi búsvæði langt í suðri til sjávar og við strendur. Nú þegar við vitum hvert óðinshaninn fer getum við leitað svara við því hvernig hann ver tímanum utan Íslands.“

Hér er kannski komin að hluta til skýringin á því hvers vegna óðinshaninn er svona spakur en það er nánast hægt að grípa hann með berum höndum. Ástæðan væri þá sú að hann hefur ekkert af mönnum að segja allan veturinn og veit því ekkert af þeim hættum sem honum kann að fylgja þegar hann kemur á varpstöðvar. 

Rauðbirkinn og rogginn, rekur niður gogginn

Óðinhani er smágerður fugl og í sumarklæðum er hann mógráleitur með hvíta flekki á kviði og apelsínugula rönd á baki. Hann er með rauðleitan kraga um hálsinn sem teygir sig upp á kollinn og líka hvítan blett neðan við gogginn sem lekur niður á hálsinn og annan fyrir ofan augun til að skeyta sig enn frekar.

Þegar reynt er að lýsa fugli í texta, eins og hér er gert, verður myndin oft dálítið bjöguð en skáldið Þórarinn Eldjárn nær samt afar vel að lýsa þessum smágerða fugli. 

Rauðbirkinn og rogginn
rekur niður gogginn.
Til og frá hann tifar
tákn í vatnið skrifar.
Allt er hann að yrkj'um
þó ekki sé á styrkjum.
Hringsnýst hann í hlykkjum
hreyfir sig með rykkjum.

Jose Alves