Skip to main content
23. janúar 2023

Nýtt tölublað Ritraðar Guðfræðistofnunar

Nýtt tölublað Ritraðar Guðfræðistofnunar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komið nýtt tölublað í Ritröð Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands í ritstjórn Arnfríðar Guðmundsdóttur, prófessors við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Í ritinu eru sex fræðilegar greinar um loftslagsréttlæti, trúfrelsi, Maríu móður Jesú, díakóníu, femíníska vistguðfræði og sálgæslu í trúarlegum kveðskap, auk þriggja ritdóma. Höfundar eru núverandi og fyrrverandi kennarar Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Bækurnar sem fjallað er um í ritdómunum eiga það sameiginlegt að spyrja áleitinna spurninga um hversu vel guðfræðileg orðræða er til þess fallin að bregðast við áskorunum eins og loftslagsbreytingum og hamfarahlýnun. Ritröð Guðfræðistofnunar er gefin út í rafrænu formi á slóðinni timarit.hi.is/ritrodgudfraedistofnunar.

Fyrsta greinin ber yfirskriftina „Ekki seinna en núna! Ákall um loftslagsréttlæti og tafarlausar aðgerðir“ og fjallar um hlýnandi loftslag og nauðsyn þess að brugðist sé án tafar við þeim skelfilegu afleiðingum sem það hefur nú þegar víðs vegar um heiminn. Greinin er eftir Arnfríði Guðmundsdóttir, en hún leggur áherslu á hugtakið „loftslagsréttlæti“ (e. climate justice), sem er samsett úr hugtökunum loftslagsbreytingar (e. climate change) og félagslegt réttlæti (e. social justice) og er hugtakinu ætlað að vekja athygli á því að við brögðin við skelfilegum afleiðingum í kjölfar loftslagsbreytinga snúast ekki bara um tæknilegar lausnir heldur líka um réttlæti til handa þeim sem verða fyrir barðinu á þessum breytingum. Í greininni er lögð áhersla á að nálgast viðfangsefnið út frá sjónarhorni femínískrar guðfræði og mikilvægi þess að endurskoðun guðfræðilegrar orðræðu taki mið af þeirri raunverulegu ógn sem lífríki jarðar stendur frammi fyrir vegna hlýnandi veðurfars.

Hjalti Hugason, prófessor emeritus, skrifar grein um þróun trúfrelsis á Íslandi á árunum 1874 til 1915. Hjalti bendir á að trúfrelsið hafi frá upphafi verið takmarkað og hafi fyrst og fremst átt að tryggja kristnum kirkjudeildum frelsi til að starfa í landinu. Stærsta skrefið í trúfrelsisátt var síðan stigið þegar sett voru lög um utan þjóðkirkjufólk árið 1886 en þau tóku til þeirra þátta sem talin voru skerða trúfrelsið. Samkvæmt þessum lögum skyldu m.a. prestsverk sem unnin voru af forstöðumönnum í söfnuðum utan þjóðkirkjunnar hafa sömu lögformlegu þýðingu og athafnir þjóðkirkjupresta og fólki sem tilheyrði ekki þjóðkirkjunni voru tryggð þau réttindi að geta gengið í borgaralegt hjónaband. Þannig var kristnum trúfélögum tryggt víðtækt frelsi til starfs. Hjalti telur að sú stefnumótun sem fram fór á tímabilinu hafi falið í sér trúarlegt félagafrelsi í ríkara mæli en trúarlegt einstaklingsfrelsi. Árið 1915 hafi trúfrelsi loks verið útvíkkað þannig að fólki var veitt frelsi til að standa utan allra trúfélaga og hafi þannig trúfrelsið loks tekið til bæði trúarlegs frelsis félaga og einstaklinga.

María, móðir Jesú í Nýja testamentinu, er til umfjöllunar í grein Rúnars Más Þorsteinssonar, þar sem hann vekur athygli á því að þrátt fyrir að María frá Nasaret, móðir Jesú, hafi gegnt mikilvægu hlutverki í sögu kristindómsins, hafi umfjöllun um hana í elsta og helsta ritsafni kristindómsins, Nýja testamentinu, verið af skornum skammti. Í greininni er að finna yfirlit yfir tilvísanir til Maríu í Nýja testamentinu og greiningu á lýsingum einstakra höfunda á persónu hennar og háttum. Ennfremur er leitast við að svara eftirfarandi spurningum: Sjáum við lýsingar á persónueiginleikum Maríu, orðum og hugsunum? Takmarkast þessar tilvísanir kannski við þá einföldu staðreynd að hún var móðir Jesú? Lýsa höfundarnir samskiptum Maríu og Jesú? Hvernig er þeim samskiptum þá háttað? Áherslan er á bókmenntafræðilega persónusköpun ásamt framsetningu hvers höfundar fyrir sig. Rúnar kemst að þeirri niðurstöðu að rit Nýja testamentisins veiti fremur brotakennda en þó fjölþætta mynd af persónu Maríu. 

Sigríður Guðmarsdóttir skrifar grein um díakóníu frá sjónarhóli norðurslóða, með áherslu á þann hluta norðurslóða sem tilheyrt hefur hinu dansk-norska heimsveldi, frá Grænlandi til Sápmi. Sigríður spyr um þau áhrif sem lega svæðanna á norðurslóðum hefur þegar íslensk díakonía og djáknaþjónusta í þjóðkirkjunni er skilgreind með tilliti til legunnar á norðurslóðum. Í greininni eru notaðar díakoníukenningar sem tengjast staðþekkingu á jöðrum samfélagsins, boðun og jafnræði, til að greina hlutverk díakoníunnar og djáknaþjónustunnar hér á landi sem umönnunar- og fræðsluþjónustu. Ennfremur eru kynntar valdar díakoníurannsóknir sem tengjast sérstaklega norðurslóðum og í greininni er bent á að rannsóknir gefi til kynna að mikilvægt sé að búa ekki til rómantíska skrautmynd af norðurslóðum. Sömuleiðis megi ekki horfa framhjá skuggahliðum nýlenduhyggjunnar og kristniboðsaðferða fortíðar en gefa rými svo að týndar áfallasögur fáist sagðar og á þær sé hlustað, um leið og unnið sé gegn áframhaldandi ásókn í auðlindir á norðurslóðum. 

„Ákall um nýjan alheimssáttmála: Guð, maður og náttúra í vistguðfræðilegum skrifum Rosemary Radford Ruether“ er heiti greinar Sólveigar Önnu Bóasdóttur. Eins og yfirskriftin ber með sér fjallar hún um einn af frumkvöðlum femínískrar vistguðfræði, bandaríska guðfræðinginn Rosemary Radford Ruether, sem lést fyrr á þessu ári. Ruether var leiðandi í femínískri guðfræðiumræðu í heimalandi sínu á síðari hluta tuttugustu aldar en áhrif hennar voru jafnframt mikil í hinu alþjóðlega samhengi. Að mati Sólveigar Önnu leggur Ruether áherslu á nýjan sáttmála milli Guðs, mannkyns og náttúru í skrifum sínum. Þá boði hún umbreytingu á tengslum milli þessara þriggja aðila og að þessi tengsl gegni lykilhlutverki þegar spurt er um færar leiðir fyrir mannkynið út úr þeim hættulegu aðstæðum sem loftslagsbreytingarnar skapa nú um stundir.

„Hversdagslíf og sálgæsla í trúarlegum kvæðum frá sautjándu öld“ er viðfangsefni Þórunnar Sigurðardóttur, en í grein sinni gengur Þórunn út frá því að, auk þess að veita upplýsingar um félagslegan tilgang með kveðskapnum, megi í kvæðum og sálmum frá þessum tíma finna upplýsingar um fleira en trúarsannfæringu skáldanna eða opinbera trúarskoðun samfélagsins. Það er mat Þórunnar að það megi oft og tíðum greina ýmislegt varðandi persónulegar aðstæður skáldanna og annarra sem þau beina sjónum að í kvæðunum. Þá setur hún fram þá tilgátu að margir skáldprestar hafi notað skáldskapargáfuna til að sinna sálgæslu sóknarbarna sinna og annarra sem skáldin voru í samskiptum við. Sálgæsla skáldpresta hafi því í einhverjum tilvikum farið fram í bundnu máli og af þeim sökum gefi trúarleg kvæði ákveðna innsýn í hversdagslíf fólks og hugarfar á sautjándu öld. Máli sínu til stuðnings tekur Þórunn dæmi úr kvæðum og sálmum eftir skáldin séra Ólaf Jónsson á Söndum í Dýrafirði og séra Guðmund Erlendsson í Felli í Sléttuhlíð.

Arnfríður Guðmundsdóttir, ritstjóri Ritraðar Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands.