Skip to main content
11. janúar 2022

Nýtt tímarit í Ritröð Guðfræðistofnunar

Nýtt tímarit í Ritröð Guðfræðistofnunar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nýtt tímarit í Ritröð Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands er komið út en meðal efnis eru greinarnar „Klisjur og krabbamein“ og „Lokun íslensku miðaldaklaustranna“. Ritröðin er gefin út í rafrænum og opnum aðgangi á slóðinni timarit.hi.is/ritrodgudfraedistofnunar. Ritstjóri er Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Fyrsta greinin í heftinu er eftir Ásdísi Björgu Káradóttur, hjúkrunarfræðing og ritlistarnema við Háskóla Íslands. Greinin, sem ber yfirskriftina „Klisjur og krabbamein: Orðræða um sjúkdóm“, fjallar um þróun orðræðu í tengslum við krabbamein. Það er niðurstaða höfundar að það skipti máli hvernig talað er um sjúkdóminn og hvaða líkingar eru notaðar til að tjá reynslu þeirra sem greinast með krabbamein og leit þeirra að merkingu og tilgangi í nýjum aðstæðum. 

Næsta grein, sem er grein Gunnlaugs A. Jónssonar prófessors, kallast að einhverju leyti á við grein Ásdísar, en viðfangsefni Gunnlaugs eru fyrstu sjö versin í 43. kafla Jesaja spámanns. Gunnlaugur les textann „í ljósi exodus-stefja og viðbragða huggunarspámannsins nafnlausa við áfallastreitu útlaganna í Babýlon“. Gunnlaugur fetar hér í fótspor ritskýrenda sem hafa farið nýjar leiðir í nálgun sinni og leita í smiðju nútímasálarfræðinnar og kenninga hennar um áfallastreituröskun við greiningu sína á textum Gamla testamentisins.

Í þriðju og síðustu grein Hjalta Hugasonar prófessors um nýbreytni í greftrunarsiðum Íslendinga á nítjándu og tuttugustu öld, er fengist við ýmsa þætti sem lúta að fagurfræði heimagrafreitanna. Í grein sinni fjallar Hjalti m.a. um það hvernig heimagrafreitunum var valinn staður og hvernig girðingum umhverfis þá var háttað. Þá gerir hann einnig grein fyrir rannsóknum sínum á því hvaða áhrif heimagrafreitirnir höfðu á útfararathöfnina. Niðurstöður Hjalta sýna að almennt hefur verið vandað til staðarvalsins. Hvað athafnirnar áhrærir, fluttust útfarirnar að einhverju leyti heim á bæina, þá sér í lagi fyrst eftir að farið var að jarða í heimagrafreitum. 

Í grein sinni „„Mentor, hvernig skal eg þá ganga til hans ... ?“ Starfsmenntun, starfsþjálfun og starfstengd leiðsögn prests og djáknaefna“ gerir Sigríður Guðmarsdóttir lektor þverfaglega starfstengda leiðsögn að umræðuefni, með áherslu á skipulag starfsmenntunar í íslensku kirkjunni og ber saman við það skipulag sem viðgengst í norsku kirkjunni. Þær spurningar sem liggja til grundvallar umfjölluninni í greininni og snúa að faglegum forsendum starfstengdrar leiðsagnar prests- og djáknaefna eru m.a. hvernig leiðsögnin hefur þróast og hvað sé mikilvægast að leggja áherslu á við leiðsögn verðandi presta og djákna til sjálfsákvörðunar, seiglu, þekkingar á starfinu og faglegrar sjálfsmyndar? Auk þess er spurt um það hver mennti mentorinn. 

Grein Steinunnar Kristjánsdóttur prófessors ber yfirskriftina „Lokun íslensku miðaldaklaustranna“. Í greininni leitast Steinunn við að draga upp heildarmynd af endalokum íslensku miðaldaklaustranna en einnig gerir hún grein fyrir því með hvaða hætti lokunin átti sér stað í hverju tilviki fyrir sig, hvenær hverju klaustri var lokað og hvers vegna. Steinunn leitar fanga í rituðum heimildum en einnig í niðurstöðum úr fornleifauppgreftri á rústum Skriðuklausturs. Rannsóknir Steinunnar hafa m.a. leitt í ljós að í engu tilfelli var klaustrum lokað vegna áfalla eða hamfara en að vöxtur og viðgangur klaustranna hafi, að því er virðist, verið undir kirkjulegum yfirvöldum kominn hverju sinni.

Síðasta greinin í þessu hefti er skrifuð af Svavari Hrafni Svavarssyni prófessor. Yfirskrift greinarinnar er „Hamingjan og heimspekin: Stóuspeki í samtímanum“. Í greininni er fjallað um dyggðasiðfræði hinna fornu stóumanna og birtingarmyndir hennar í samtímanum. Þá er gerður samanburður annars vegar á dyggðasiðfræði stóumanna og hins vegar á dyggðasiðfræði sem á rætur að rekja til Aristótelesar.