Nýtt þverfræðilegt námskeið um rekstur í sjávarútvegi | Háskóli Íslands Skip to main content

Nýtt þverfræðilegt námskeið um rekstur í sjávarútvegi

4. september 2017

Ágúst Einarsson prófessor snýr aftur og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, flytur erindi um mikilvægi norðurslóða í nýju námskeiði tengdu sjávarútvegi sem boðið verður upp á við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands á vormisseri.

Námskeiðið nefnist Rekstur í sjávarútvegi. Ásta Dís Óladóttir, lektor við Viðskiptafræðideild, hefur sett námskeiðið saman og er umsjónarmaður þess. Námskeiðið er byggt á grunni námskeiðs sem Ágúst Einarsson, fyrrverandi prófessor við Viðskiptafræðideild, kenndi í mörg ár við miklar vinsældir.  Fjölmargir sérfræðingar innan Háskóla Íslands, úr Viðskiptafræðideild, Hagfræðideild, Lagadeild, verkfræði og matvælafræði, koma að kennslu í námskeiðinu ásamt Daða Má Kristóferssyni, prófessor í auðlindahagfræði og forseta Félagsvísindasviðs. Þá mun Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og prófessor við Háskóla Íslands, flytja erindi um mikilvægi Norðurslóða.

Námskeiðið er haldið í samvinnu við fjölmörg fyrirtæki í sjávarútvegi, en forsvarsmenn þeirra munu koma í heimsókn auk þess sem nemendum gefst kostur á að heimsækja fyrirtækin og skoða starfsemi þeirra.

Námskeiðið stendur nemendum á þriðja á ári í grunnnámi og öllum í framhaldsnámi í Háskóla Íslands til boða. Það er hugsað fyrir þá sem vilja öðlast skilning á helstu þáttum og forsendum íslensks sjávarútvegs og þýðingu og áhrifum hans á íslenskt hagkerfi. Námskeiðið sameinar hagnýta og fræðilega þekkingu á sviði sjávarútvegsfræða. 

Nánari  upplýsingar um námskeiðið má finna í kennsluskrá Háskóla Íslands.

Ásta Dís Óladóttir, lektor við Viðskiptafræðideild

Netspjall