Skip to main content
20. janúar 2020

Nýtt og notendavænt námsumsjónarkerfi í Háskóla Íslands

Háskóli Íslands hefur hafið innleiðingu á nýju námsumsjónarkerfi sem notað verður í allri kennslu við skólann frá og með haustinu 2020. Kerfið, sem býður upp á mikla möguleika til kennsluþróunar, mun leysa af hólmi kennsluvef Uglunnar og Moodle. 

Kerfið nefnist Canvas og er þróað af fyrirtækinu Instructure. Það er algengasta námsumsjónarkerfi í háskólum á Norðurlöndum og er notað í mörgum af fremstu háskólum heims, t.d. Harvard, Oxford og Stanford. Það var valið að undangenginni ítarlegri úttekt í náinni samvinnu við fulltrúa nemenda og starfsfólks Háskólans.

Kerfið er sveigjanlegt og einfalt í notkun og mætir í senn þörfum og kröfum kennara og nemenda og er liður í vaxandi áherslu Háskóla Íslands á rafræna kennsluhætti. Í kerfinu verða kennsluvefir allra námskeiða skólans vistaðir. Þar geta kennarar til dæmis séð skráða nemendur, deilt námsefni, verkefnum og prófum, sent nemendum tilkynningar og haldið utan um námsmat. Kerfið býður enn fremur upp á ótal tækifæri til þróunar kennsluhátta.

Nemendur fá í kerfinu góða yfirsýn yfir námsmat, námsgögn og leslista, einkunnir og tilkynningar frá kennurum. Megináhersla er lögð á notendavæna upplifun og væntingar standa til að það verði miðpunktur náms og kennslu á vefnum, líkt og fram hefur komið í óskum nemenda skólans.

Canvas er þróað af fyrirtækinu Instructure. Það er algengasta námsumsjónarkerfi í háskólum á Norðurlöndum og er notað í mörgum af fremstu háskólum heims, t.d. Harvard, Oxford og Stanford. Það var valið að undangenginni ítarlegri úttekt í náinni samvinnu við fulltrúa nemenda og starfsfólks Háskólans.

Sextíu manna hópur kennara og um 2.300 nemendur ríða á vaðið og eru í svokölluðum prófunarhóp sem nýta mun kerfið nú á vormisseri en markmiðið með þeirri vinnu er að sníða kerfið enn betur að þörfum Háskólans. Canvas-kerfið verður svo opnað öllum kennurum á vormánuðum með það fyrir augum að það verði komið í fulla notkun sem námsumsjónarkerfi Háskóla Íslands þegar haustmisserið 2020 hefst. Um leið verða kennsluvefir Uglunnar og Moodle lagðir niður. Uglan verður hins vegar áfram umsýslukerfi og innri vefur skólans.

Kennslusvið Háskóla Íslands heldur utan um innleiðingu Canvas í samstarfi við upplýsingatæknisvið. Kennurum og nemendum skólans verður boðið upp á margvíslega þjálfun í notkun hins nýja kerfis og öfluga þjónustu eftir að það hefur verið innleitt.

Háskóli Íslands velur Canvas – myndband. 

„Innleiðing Canvas-námsumsjónarkerfisins er mikið framfaramál fyrir Háskóla Íslands. Kerfið var valið á grundvelli viðamikillar þarfagreiningar og notendaprófana þar sem margir starfsmenn og fulltrúar allra fræðasviða tóku þátt. Það er mitt mat að valið á kerfinu hafi verið einstaklega vel heppnað og notendamiðað. Innleiðing Canvas mun ótvírætt styðja við stefnu Háskóla Íslands um gæði náms og kennslu. Canvas býður upp á ótal nýja möguleika í kennslu, t.d. tækifæri á auknu samstarfi um námskeið þvert á landamæri milli háskóla sem nýta kerfið,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar um Canvas-námsumsjónarkerfið má finna vef þess, canvas.hi.is.

Canvas í stuttu máli

Úr kennslustund.