Skip to main content
12. janúar 2019

Nýtt netnámskeið um sauðfjárbeit í landi elds og ísa

kindur

Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðsla ríkisins og Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna standa saman að nýju netnámskeiði á háskólastigi um áhrif sauðfjárbeitar á Íslandi sem opið er nemendum alls staðar að úr heiminum. Formleg opnun námskeiðsins fór fram föstudaginn 11. janúar í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, að viðstöddum umhverfis- og auðlindaráðherra.

Námskeiðið ber heitið Sauðfé í landi elds og ísa (e. Sheep in the Land of Fire and Ice) og er svokallað MOOC-námskeið (Massive Open Online Course). Það er vistað innan svokallaðs edXEdge-nets sem hefur að geyma fjölda slíkra námskeiða. 

Námskeiðinu er skipt í fimm hluta þar sem nemendur fræðast m.a. um sauðfjárbeit á Íslandi fortíð, nútíð og framtíð og þýðingu hennar í sögulegu, menningarlegu og efnahagslegu samhengi, en slík beit hefur haft áhrif á bæði samfélag og umhverfi allt frá landnámi. Deilt hefur verið um hversu sjálfbær sauðfjárbeitin hefur verið og hversu mikil áhrif hún hefur haft á jarðvegsrof og vistkerfi í landinu en á námskeiðinu er sérstakleg fjallað um þau vistfræðilegu lögmál sem liggja að baki misþungri beit og rannsóknir á flóknu samspili beitar og sjálfbærni lands. 

Kennarar í námskeiðinu eru helstu sérfræðingar landsins í þessum efnum og koma m.a. úr Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, frá Landgræðslu ríkisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og úr hópi bænda. Auk þeirra koma fræðimenn frá Simon Fraser University í Kanada að námskeiðinu.

Myndir frá formlegri opnun námskeiðsins

Námskeiðið er kennt á ensku og opið öllum þeim sem áhuga hafa á sauðfé og sauðfjárbeit á Íslandi, vistkerfum á norðurslóðum og umhverfisvernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda. Hægt er að byrja á námskeiðinu hvenær sem er og nemendur geta tekið það á sínum hraða. 

Nú þegar hefur verið opnað fyrir skráningu í námskeiðið á heimasíðu þess en sem fyrr segir verður formleg opnun þess í Öskju í dag kl. 16.30. Fjölmiðlar eru boðnir velkomnir á opnunina.

Kynningarmyndband vegna námskeiðsins.

Gestir við opnun námskeiðsins