Skip to main content
20. ágúst 2018

Nýtt námskeið í boði fyrir meistaranema

Á haustmisseri verður kennt nýtt námskeið við Viðskiptafræðideild sem ber heitir Vellíðan, starfsumhverfi og forysta og verður kennt frá 15. október- 7. desember.

Sigrún Gunnarsdóttir dósent við Viðskiptafræðideild, hefur sett námskeiðið saman og er umsjónarmaður þess. Sigrún er sérfræðingur í heilbrigðu starfsumhverfi og forystu. Auk hennar koma íslenskir sérfræðingar að kennslu og gestakennarinn Dr. Kasper Edwards hjá DTU í Kaupmannahöfn sem er þekktur sérfræðingur á sviði starfsumhverfis, straumlínustjórnunar, félagsauðs og forystu.

Sigrún lauk meistaragráðu í hjúkrun við Háskóla Íslands með áherslu á heilsueflingu starfsmanna og doktorsprófi frá London School of Hygiene & Tropical Medicine með áherslu á lýðheilsu, stefnumótun, starfsumhverfi, forystu og líðan starfsfólks. Sigrún hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur, stjórnandi og ráðgjafi innan heilbrigðisþjónustunnar, fyrst í heilsugæslunni, þá hjá heilbrigðisráðuneytingu og landlæknisembættinu og síðar á Landspítala sem gæðastjóri og sem stjórnandi deildar um heilsu og vellíðan starfsfólks. Síðar starfaði Sigrún sem aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra. Frá árinu 2007 hefur Sigrún stundað rannsóknir og kennslu við Háskóla Íslands og frá 2013 við Háskólanna á Bifröst. Sigrún gegndi starfi formanns í stéttarfélagi hjúkrunarfræðinga, var stofnandi Félags um lýðheilsu, er formaður Þekkingarseturs um þjónandi forystu og hefur frá árinu 2003 verið ráðgjafi hjá skrifstofu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um mannauðsmál í Kaupamannahöfn.

Stjórnendur og leiðtogar leggja æ meiri áherslu á heilbrigt starfsumhverfi, sem tengist bæði vellíðan starfsfólks og árangri. Í þessu námskeiði verður fjallað um nýja þekkingu um heilbrigt starfsumhverfi og rýnt í samspil starfsumhverfis, forystu, heilsu og líðan starfsfólks. Markmiðið er, að nemendur kunni skil á áhrifaþáttum heilbrigðis í starfi, þekki helstu kenningar í þessu samhengi, fái innsýn í tengsl starfsumhverfis, forystu og heilbrigðis og nýjar rannsóknir á sviðinu. Sérstaklega verðu rýnt í gagnreynd líkön um heilbrigt starfsumhverfi. Fjallað verður um heilsueflandi forystu og forvarnir kulnunar. Nemendur rýna í raunveruleg dæmi og setja fram áætlun um leiðir til að þróa og styrkja heilbrigt starfsumhverfi með áherslu á sameiginlega ábyrgð leiðtoga og starfsfólks. Námsefni og verkefni snúa að fræðilegri og hagnýtri þekkingu, nemendur rýna í nýjar rannsóknir á sviðinu og greina raunveruleg dæmi.

Efni námskeiðsins höfðar til þeirra sem hafa áhuga á að auka þekkingu sína um árangursríkar leiðir til að efla heilbrigt starfsumhverfi og vellíðan starfsfólks og hentar til dæmis sérstaklega þeim sem vinna við stjórnun og mannauðsstjórnun. Námskeiðið stendur öllum nemendum til boða sem sem stunda meistaranám við Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna í kennsluskrá með því að smella hér.

Sigrún Gunnarsdóttir, dósent við Viðskiptafræðideild