Skip to main content
20. febrúar 2019

Nýtt húsnæði Menntavísindasviðs – hver er okkar framtíðarsýn?

Starfshópur um framtíðarhúsnæði Menntavísindasviðs boðaði til upplýsinga- og samráðsfundar í hádeginu í dag, miðvikudaginn 20. febrúar. Frá sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands árið 2008 hefur verið gert ráð fyrir byggingu nýs húsnæðis Menntavísindasviðs vestur á melum. 

Starfshópurinn var skipaður af rektor Háskóla Íslands í lok síðasta árs. Hópnum er  ætlað að standa að þarfagreiningu á framtíðarhúsnæði fræðasviðsins og vera rektor ráðgefandi varðandi áform um nýtt húsnæði sviðsins. Starfshópinn skipa: Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, varaformaður, Erlingur S. Jóhannsson prófessor, Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, Hanna Ólafsdóttir lektor, Deild faggreinakennslu, Svanborg R. Jónsdóttir dósent, Deild menntunar og margbreytileika, Svava Pétursdóttir lektor, Deild kennslu- og menntunarfræði, Kolbrún Lára Kjartansdóttir, fulltrúi nemenda, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu HÍ og Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Með hópnum starfar Sigurlaug I. Lövdahl, skrifstofustjóri framkvæmda- og tæknisviðs.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs og formaður starfshópsins, gerði grein fyrir þeirri vinnu sem framundan er og kallaði eftir hugmyndum og sjónarmiðum starfsfólks. Fundinn sat einnig Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, sem hefur unnið að þarfagreiningu nýs húsnæðis Heilbrigðisvísindasviðs ásamt Sigurlaugu I. Lövdahl.

Lykilþættir í þarfagreiningunni eru fjórir; þ.e. nám og kennsla, rannsóknir, starfsumhverfi og samstarf og verður hún unnin í víðtæku samráði við starfsfólk og nemendur. Ólafur og Sigurlaug munu á næstu mánuðum taka viðtöl við stjórnendur deilda og námsbrauta Menntavísindasviðs, þar sem kallað verður eftir sjónarmiðum stjórnenda. Rafræn könnun verður jafnframt send á allt starfsfólk sviðsins, opnuð verður samráðsgátt þar sem tækifæri gefst til að senda inn hugmyndir. Eins verður farið í rýnihópavinnu með starfsfólki og nemendum. Þá verður fyrstu niðurstöður hópsins kynntar og ræddar á næsta misserisþingi. 

Fundarstjóri var Erlingur Jóhannsson og stýrði hann umræðum í lok fundarins. Hugmyndir sem komu fram voru meðal annars að kalla þyrfti eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila í þeirri vinnu sem framundan er. Við vinnuna verður jafnframt litið til erlendra háskóla sem bjóða upp á sambærilegt nám. Ljóst er að í mörg horn er líta varðandi framtíðarþróun háskóla í heiminum, t.d. með tilliti til þróunar á staðnámi og fjarnámi.

Glærur frá fundinum. 

Starfshópur um framtíðarhúsnæði Menntavísindasviðs boðaði til upplýsinga- og samráðsfundar í hádeginu í dag, miðvikudaginn 20. febrúar.