Nýtt hlaðvarp Jafnréttisskóla GEST | Háskóli Íslands Skip to main content
24. janúar 2020

Nýtt hlaðvarp Jafnréttisskóla GEST

The GEST Podcast er nýtt hlaðvarp á vegum Jafnréttisskóla GEST (Gender Equality Studies and Training Programme) við Háskóla Íslands. Í hlaðvarpinu tekur Thomas Brorsen Smidt, doktor í kynjafræði, viðtöl við nemendur skólans um líf þeirra, væntingar og það sem á daga þeirra drífur hér á Íslandi. Einnig verða tekin viðtöl við sérfræðinga sem kenna við skólann.

Nú hafa tveir þættir verið birtir og í þeim fyrsta var rætt við Allen Asiimwe frá Úganda, m.a. um hefndarklám, og í öðrum þætti var rætt við Musa Hove og Limbikani Mkangadzula um áskoranirnar sem felast í því að vekja áhuga karla og drengja á jafnrétti kynjanna.

Hægt er að gerast áskrifandi að The GEST Podcast á iTunes, Spotify, Google Podcast og öðrum hlaðvarpsveitum.

Markmið Jafnréttisskólans er að stuðla að kynjajafnrétti, valdeflingu kvenna og félagslegu réttlæti með því að þjálfa fólk til jafnréttisstarfa, m.a. í samfélögum sem verið er að byggja upp eftir átök. Jafnréttisskólinn GEST er partur af GRÓ - Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem er sjálfstæð miðstöð um uppbyggingu færni og þekkingar í þróunarlöndum. Verkefni Jafnréttiskólans styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, en skólinn starfar undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Thomas Brorsen Smidt ræðir við Limbikani Mkangadzula.