Skip to main content
24. ágúst 2018

Nýtt fréttabréf HÍ undir hatti Háskólavina

Háskóli Íslands hefur hafið útgáfu fréttabréfs með forvitnilegum tíðindum úr háskólastarfinu í formi frétta og myndbanda auk þess sem áskrifendur fá ábendingar um fjölmarga og ólíka viðburði á vegum skólans.

Fréttabréfið er gefið út undir hatti Háskólavina, hollvinastarfs Háskóla Íslands, en markmið þess er m.a. rækta tengsl við fyrrverandi nemendur og aðra vini Háskólans. Allir geta orðið vinir Háskóla Íslands, núverandi og fyrrverandi nemendur, starfsmenn, fyrirtæki, stofnanir og í raun allir þeir sem unna hag skólans. Með því að virkja og rækta tengslin við Háskóla Íslands bjóðast upplýsingar um viðburði á vegum skólans en hann stendur fyrir fjölda málþinga, umræðufunda, fyrirlestra og ráðstefna um mál sem varða samfélag, umhverfi, rannsóknir, menningu, menntun og ótalmargt fleira. Hægt er að skrá sig á póstlista Háskóla Íslands á vef skólans.

Stefnt er að því að gefa fréttabréfið út hálfsmánaðarlega og leit fyrsta tölublaðið dagsins ljós fimmtudaginn 23. ágúst. Það er m.a. helgað nýafstöðnum ársfundi Háskóla Íslands en meðal annars efnis sem finna má á síðum bréfsins eru myndbönd um Háskólann í hnotskurn og nýsköpunarstarf innan skólans og fréttir af upphafi skólaárs, verðlaunum rektors og kappakstursliði Háskóla Íslands, Team Spark. Auk þess er þar kynning á fjölbreyttu úrvali háskólavara í Bóksölu stúdenta og viðburðum á vegum skólans í upphafi hausts. 

Slóð á fyrsta tölublaðið 

Ritstjórn fréttablaðsins tekur vel á móti ábendingum um efni en þær má senda á netfangið marksam@hi.is

nemendur á Háskólatorgi