Skip to main content
6. október 2020

Nýtt fræðirit um bókmenntagreinar norrænna miðalda

Bókin A Critical Companion to Old Norse Literary Genre í ritstjórn Sifjar Ríkharðsdóttur, prófessors við Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands, Carolyne Larrington og Massimiliano Bampi er komin út hjá Boydell & Brewer. Hún inniheldur kafla eftir fjölda erlendra og innlendra höfunda, þar með talið Torfa H. Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands, Dale Kedwards, nýdoktor við Vigdísarstofnun og Sif Ríkharðsdóttur ásamt þrettán öðrum höfundum. Bókin er fimmta bókin í ritröðinni Studies in Old Norse Literature hjá fyrrnefndu forlagi.

A Critical Companion to Old Norse Literary Genre fjallar um bókmenntagreinar norrænna miðalda og þar er meðal annars velt vöngum yfir því hvort norræn miðaldasamfélög hafi flokkað bókmenntir sínar í ákveðnar greinar eða hvort höfundar hafi meðvitað ritað verk sín með ákveðin stíleinkenni og formgerðarramma í huga til að þær féllu inn í ákveðinn hóp eða flokk safna, til að mynda Íslendingasagna, eða hafi jafnvel markvisst umbreytt slíkum stöðluðum viðmiðum. Bókin spannar vítt svið norrænna fornsagna, allt frá dróttkvæðum til biskupasagna og frá upphafi íslenskrar ljóðhefðar fram á síðmiðaldir. Bókin á því erindi við nemendur jafnt sem fræðimenn í norrænum fræðum.

Bókin skiptist í þrjá hluta en í fyrsta hlutanum er tekist á við fræðilegar forsendur hugtaksins „bókmenntagrein.“ Í miðhluta bókarinnar nálgast höfundar efnivið og hugtakið frá þematengdu sjónarhorni og lokahluti bókarinnar samanstendur af stuttum greiningarköflum sem beinast að ákveðnum bókmenntagreinum, svo sem eddukvæðum, riddarasögum, Íslendingasögum o.s.frv. Í lok bókar er yfirlit yfir fornnorrænar bókmenntagreinar og flokkun þeirra ásamt stuttri lýsingu á hverri grein fyrir sig.

Út er komin bókin A Critical Companion to Old Norse Literary Genre í ritstjórn Sifjar Ríkharðsdóttur. Meðal höfunda greina eru Torfi Tulinius og  Dale Kedwards.