Skip to main content
1. júlí 2020

Nýta raddir ungs fólks til að rannsaka félagatengsl ungmenna af ólíkum uppruna

Vísbendingar eru um að unglingar, sem sest hafa að hér á landi, standi jafnan höllum fæti þegar kemur að því að mynda tengsl við íslenska jafningja sína og að þeim gangi ekki jafn vel að eignast vini og þau sjálf myndu kjósa.

Þau Davíð Alexander Östergaard og Erla Hrund Gunnarsdóttir, nemendur í uppeldis- og menntunarfræði, vinna að rannsókn í sumar sem snýr að því að kynnast sýn, upplifun og reynslu íslenskra unglinga af vina- og félagatengslum við unglinga sem sest hafa að á Íslandi.

„Erlendar rannsóknir hafa dregið upp þá mynd að börn og unglingar hafi ríka tilhneigingu til að tengjast frekar vinaböndum innan eigin þjóðernishóps og jafnframt að vinatengsl þvert á uppruna geti dregið úr fordómum og kvíða sem tengist samvistum með hópum með ólíkan bakgrunn. Unglingar af íslenskum uppruna eru í þeirri stöðu að geta haft mikil áhrif á upplifun innfluttra jafningja sinna hvað varðar félagsleg tengsl og það að vera hluti af íslensku samfélagi,“ segir Davíð Alexander.

„Hver sá sem hefur sest hér að á ekki að þurfa að upplifa sig óvelkominn á einn eða annan hátt og tengslanet við jafningja getur skipt sköpum þegar kemur að því að aðlagast samfélagsgerð sem kanski er að mörgu leyti ólík því sem sá hinn sami hefur alist upp við. Ef veruleikinn er á þann veg að slíkt sé algengt er vert að fara ofan í kjölinn á málinu svo hægt sé að bæta stöðuna,“ bætir hann við.

Rannsóknin verður unnin á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna en Eyrún María Rúnarsdóttir, aðjunkt á Menntavísindasviði og annar leiðbeinandi verkefnisins, hefur áður fjallað um þetta viðfangsefni í sínum rannsóknum. Ásamt henni mun Eygló Rúnardóttir, sem einnig er aðjunkt á Menntavísindasviði, koma að rannsókninni.

„Eyrún María hefur verið kennari okkar Erlu síðustu misseri. Hún lét okkur nemendurna góðfúslega vita af því að hægt væri að sækja um styrk til Nýsköpunarsjóðs Rannís og eftir að þessi vinkill fæddist, þ.e. að taka púlsinn á íslenskum unglingum hvað þetta varðar, létum við verða að því að sækja um. Vonin er sú að okkur takist að troða einhverja slóð á nýju rannsóknarsviði og að raddir ungs fólks, sem of oft fá ekki að heyrast, komi til með að verða gagnlegar í þróun úrræða til að bæta samskipti og byggja brýr á milli ungmenna af ólíkum uppruna,“ segir Davíð.

Notast verður við blandaða rannsóknaraðferð, bæði af eigindlegum og megindlegum toga. Í megindlega hlutanum verður notast við fyrirliggjandi gögn til að kortleggja vinatengsl unglinga en í þeim eigindlega verða tekin viðtöl við nokkra unglinga, bæði í formi rýnihóps en einnig paraviðtala, í þeirri von um að kynnast innsýn þeirra og upplifun af vina- og félagatengslum í menningarlega fjölbreyttu samfélagi. Jafnframt verður talað við tvo starfsmenn tiltekinnar félagsmiðstöðvar í sama tilgangi en Davíð segir fróðlegt að fá einnig þeirra innsýn og reynslu. Annars vegar verður reynt að nálgast sjónarmið þeirra sem hafa reynslu af vinskap þvert á uppruna og hins vegar þeirra sem gera það ekki. Með því verður vonandi hægt að greina mögulega þætti sem skipta máli sem síðan verður hægt að vinna frekar með, komi til frekari rannsókna á viðfangsefninu.

„Vonandi leynast vísbendingar um hvað gæti mögulega legið að baki því að unglingar af erlendu bergi brotnir standi frammi fyrir áðurnefndum áskorunum. Það er nefnilega mjög mikilvægt að finna að maður tilheyri hópi og það getur í þessu samhengi verið vinahópurinn, skólasamfélagið, íþróttalið eða bara samfélagið í heild sinni. Það hlýtur að vera jákvætt og mikil forvörn í sjálfu sér hvað varðar ýmsa áhættuþætti.“

Þau Davíð Alexander Östergaard og Erla Hrund Gunnarsdóttir, nemendur í uppeldis- og menntunarfræði, vinna að rannsókn í sumar sem snýr að því að kynnast sýn, upplifun og reynslu íslenskra unglinga af vina- og félagatengslum við unglinga sem sest hafa að á Íslandi.