Skip to main content
28. maí 2018

Nýstárlegar hugmyndir frá frumkvöðlum framtíðarinnar

Flugvéladekkjaskeið, sturtuhandklæðaskápur og hjálmalás voru meðal verkefna sem verðlaunuð voru í úrslitum Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) sem fram fór um liðna helgi. Háskóli Íslands er meðal helstu bakhjarla keppninnar. 

Keppnin er ætluð 5.-7. bekkingum og var nú haldin í 28. sinn. Yfir 1200 hugmyndir frá 38 skólum víðs vegar af landinu bárust að þessu sinni og voru 26 þeirra valdar til að taka þátt í vinnusmiðju og úrslitakeppni dagana 24.-26. maí. Að baki hugmyndunum stóðu alls 40 nemendur en þeir komust í gegnum strangt matsferli þar sem uppfinningar þeirra voru metnar með tilliti til hagnýti, nýnæmi og markaðshæfi. 

Veitt voru verðlaun fyrir fyrsta til þriðja sætið í keppninni  auk sérstakra  viðurkenninga fyrir framúrskarandi lausnir á sviði fjármála, tækni, samfélagslegrar nýsköpunar, forritunar, hönnunar og umhverfismála. 

Auk þess fékk hópur þátttakenda viðurkenningarskjal ásamt gjafabréfi í ýmist FAB LAB smiðju Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í Vestmannaeyjum, Háskóla unga fólksins í Háskóla Íslands árið 2019 eða IKEA. 

Nánari upplýsingar um verðlaunahafa er að finna á vef keppninnar

Við sama tilefni fengu tveir kennarar hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi störf við eflingu nýsköpunarmenntunar á Íslandi og hljóta báðir nafnbótina „Nýsköpunarkennari grunnskólanna árið 2018“. Þetta eru þær Sædís Arndal í Hofsstaðaskóla og Arna Björk H. Gunnarsdóttir í Vesturbæjarskóla.

Háskóli Íslands er meðal helstu bakhjarla Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Skólinn styður hana með fjárframlagi auk þess sem starfsfólk skólans kemur að dómnefndarstörfum og leiðsögn í vinnusmiðjum sem haldnar eru úrslitahelgina. Þá veitti skólinn tíu þátttakendum sem komust í úrslit gjafabréf í Háskóla unga fólksins sem fyrr segir. Það var Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda við Háskóla Íslands, sem afhenti þátttakendum gjafabréfin.

Verðlaunahafar í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna ásamta fulltrúum aðstandenda keppninnar.
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda við Háskóla Íslands, afhenti tíu þátttakendum í úrslitakeppni NKG gjafabréf í Háskóla unga fólksins 2019.